Rétt fyrir klukkan fjögur nú síðdegis var tilkynnt um eld í einbýlishúsi á Selfossi. Slökkvistarf stendur enn yfir en mikill eldur var í húsinu og ekki unnt fyrir slökkvilið að komast inn vegna gríðarlegs hita. Húsráðandi og gestkomandi kona eru í haldi lögreglu vegna rannsóknar á eldsupptökum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.
Grunur er um að karl og kona hafi verið á efri hæð hússins þegar eldurinn kom upp. Þeirra er nú leitað.
Sérfræðingar tæknideildar lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu hafa verið kallaðir til aðstoðar við rannsókn málsins.
Slökkvistarf stendur enn yfir. Vettvangur verður lokaður óviðkomandi eftir að því lýkur vegna vettvangsrannsóknar.
Frekari upplýsingar er ekki unnt að veita að sinni.