Íslenskir karlar eru tíu og hálfu ári lengur í vinnu en karlar í Evrópusambandslöndum að meðaltali. Þá er starfsævi karla um átta árum lengri en karla í hinum Norðurlöndunum.
Þetta kemur fram í nýju efnahagsyfirliti VR.
Þar segir að starfsævi Íslendinga sé sú lengsta í Evrópu. Konur eru tæplega tólf árum lengur á vinnumarkaði en kynsystur þeirra í aðildarlöndum Evrópusambandsins.
Í samanburði við hin Norðurlöndin eru íslenskar konur tæplega sjö árum lengur á vinnumarkaði en konur á hinum Norðurlöndunum.
„Vænt starfsævi íslenskra karla er 48,8 ár. Þá vekur það athygli að íslenskar konur eyða fleiri árum ævi sinnar í vinnu, eða 45,2 árum, en þeir karlar sem vinna lengst að íslenskum karlmönnum undanskildum. Karlar frá Sviss eru á vinnumarkaði 44,9 ár að meðaltali og raðast beint á eftir íslenskum körlum, og á eftir íslenskum konum,“ segir í efnahagsyfirlitinu sem má sjá hér.