„Við vegum þetta og metum þegar þar að kemur. Ef þetta truflar gang samfélagsins og rýrir umferðaröryggi grípum við til okkar ráða,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Morgunblaðið í dag.
Hópur sem kallar sig „Stopp hingað og ekki lengra“ hefur boðað lokun Reykjanesbrautar á næstu dögum. Banaslys varð á brautinni snemma í gærmorgun og hafa talsmenn hópsins fengið sig fullsadda á seinagangi við tvöföldun brautarinnar á þeim kafla sem slysið varð.
Guðbergur Reynisson, talsmaður hópsins, boðaði lokun brautarinnar á Facebook-síðu hópsins í gær. „Í þessari viku mun Reykjanesbraut verða lokað um tíma í mótmælaskyni við aðgerðaleysi stjórnvalda. Og í næstu viku líka og þarnæstu. Ég veit ekki með ykkur en ég er búinn að fá nóg,“ sagði Guðbergur í hópnum.
Guðbergur segir að ekki verði tilkynnt hvenær af lokuninni verður heldur muni þær upplýsingar aðeins liggja fyrir innan undirbúningshóps vegna aðgerðanna.
Guðbergur segir í forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag að hópurinn hafi reynt að fara „góðu“ leiðina. „Eina leiðin til að ná eyrum ráðamanna er að gera eitthvað róttækt. Við erum búin að reyna að fara allar leiðir í að spjalla við men og mæta á fundi.“
Skiptar skoðanir eru um mótmælaaðgerðirnar innan Facebook-hópsins og eru margir innan hans fylgjandi aðgerðum sem þessum. Sumir telja aðgerðirnar þó vafasamar. Einn spyr til dæmis af hverju það eigi að bitna á almenningi ef stjórnvöld sinna ekki sínu. Annar spyr þá á móti hvernig hann vilji leysa þetta öðruvísi. „Það eru margar aðrar leiðir til þess án þess að fá fólkið upp á móti ykkur,“ svarar málshefjandi að bragði.
Einn sem blandar sér í umræðurnar, Arnar að nafni, segir það þvílíka vitleysu að fara í aðgerðir sem þessar. „Fólk missir af flugi og aðrir af vinnu, hver ætlar að borga það ? Er öll skynsemi týnd hjá ykkur ? Hver græðir á svona heimskulegum mótmælum.“
Gunnar, sem er fylgjandi aðgerðunum, svarar og segir: „Það er vel hægt að loka brautinni á öðrum tíma en þeim sem mikil umferð er í brottfarir eða akstur til vinnu! Smávægilegar tafir fyrir fólk er hjóm eitt í samanburði við það sem vonandi ávinnst með þessum þrýstingi.
Arnar bendir svo á að Reykjanesbrautin sé aðalleiðin fyrir sjúkraflutninga frá Suðurnesjum. „Með þessum mótmælum getur hæglega næsti maður tapað lífi, hver myndi bera ábyrgð á því? Þetta eru bara mínar hugsanir um þessa vitlausu aðferð, það þarf alveg að hugsa út fyrir ramman ef það á að skipuleggja svona rugl.“
Áhyggjur fólks af sjúkraflutningum eru fyrirferðamiklar hjá þeim sem lýsa sig andsnúna aðgerðunum.
„Það er öryggisatriði að hafa Reykjanesbrautina opna. T.d. gæti sjúkrabíll í forgangi tafist illilega ef brautin væri full af kyrrstæðum bílum sem gætu sig hvergi hreyft. Alla vega mundi lokun brautarinnar koma verst niður á saklausum vegfarendum og væntanlega hafa harla lítil áhrif á ráðamenn. Það er ósjaldan sem brautin lokast vegna umferðarslysa og ekki virðist það hafa mikil áhrif á þá. En þetta gæti verið atvinnuskapandi fyrir lögfræðinga, því málaferli mundu án efa verða nokkur með tilheyrandi bótakröfum,“ segir Hallmundur.
Pétur blandar sér svo í umræðuna með býsna afgerandi hætti.
„Ef þú vilt ekki það skuli vera gengið í skrokk á þér þá skaltu sleppa þessari helvítis vitleysu! Það er fólk á suðurnesjum sem þarf að fara á sjúkrahús í Reykjavík á hverjum degi og að hindra för þess getur haft mjög alvarlegar afleiðingar. Ég mun gera HVAÐ SEM ER til að mitt nánasta fólk komist á sjúkrahús til að fá lífsnauðsynlegar meðferðir. Ég mun glaður sitja í steininum fyrir að banka allrækilega í hausinn á þeim sem ætla að standa í vegi þeirra sem þurfa að fá nauðsynlegar aðhlynningar. Hvernig væri að frekar að heimta það að umferðareftirlit verði hert svo um munar þannig að það er hægt að taka þá úr umferð sem keyra um eins og brjálæðingar og drepa okkur þau sem keyra um eins og menn. Akstursmáti fólks mun ekki batna við að tvöfalda vegi. BTW. Ég er algjörlega á móti núverandi ríkisstjórn og á móti stjórnmálakerfinu í heild sinni sem er gjör spillt frá A til Ö. Svo það er ekki út af hliðhollu við ríkisstjórn að ég er á móti þessu.“
Guðbrandur Sigurðsson hjá lögreglunni segir við Morgunblaðið í dag að reynt sé að höfða til skynsemi fólks. Það sé lýðræðislegur réttur fólks að mótmæla en það takmarkist við það að mótmælin skapi ekki hættu. Ef og þegar mótmælin fara að skapa hættu þá muni lögreglan grípa inn í. Þá segist hann að lokum skilja áhyggjur fólks en hvetur fólk til að hlaupa ekki á sig með aðgerðum sem þessum. „Þar að auki er ekki víst að þetta sé vegna vegakerfisins. Ýmsir aðrir þættir spila inn í svona mál, eins og athygli ökumanns,“ segir hann við Morgunblaðið í dag.