fbpx
Laugardagur 10.maí 2025
Fréttir

Þekktir Íslendingar með ADHD

Auður Ösp
Föstudaginn 26. október 2018 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Október er alþjóðlegur ADHD vitundarmánuður en talið er að fimm til tíu prósent allra barna hér á landi séu haldin ADHD eða ofvirkni með athyglisbresti.

Á vef ADHD samtakanna er Athyglisbrestur og ofvirkni, oft kallað ADHD í daglegu tali, lýst sem taugaþroskaröskun sem kemur yfirleitt snemma fram eða fyrir 7 ára aldur og getur haft víðtæk áhrif á daglegt líf, nám og félagslega aðlögun. Athyglisbrestur og ofvirkni er algerlega óháð greind. ADHD er alþjóðleg skammstöfun og stendur fyrir “Attention Deficit Hyperactivity Disorder.

Þekkt einkenni athyglisbrests eru einbeitingarskortur, gleymska, skipulagserfiðleikar, lélegt tímaskyn, hreyfióróleiki og hvatvísi. Röskunin getur valdið námsörðugleikum og erfiðleikum í samskiptum en það má ekki gleyma því að einstaklingar með ADHD búa einnig yfir mörgum styrkleikum eins og sköpunargáfu, úthaldi, orku og forvitni. Atriði sem henta kanski illa fyrir hefðbundið skólaumhverfi en geta komið sér vel seinna á lífsleiðinin.

Af gefnu tilefni tók DV saman nokkra þekkta Íslendinga sem talað hafa opinskátt um reynslu sína af því að vera með ADHD.

 Magnús Jónsson leikari og tónlistarmaður

Í viðtali við vefinn Pjatt.is árið 2013 sagðist Magnús vera með „kröftugt ADHD.“ „Ég reyni að blasta mér með annað hvort hlaupum, körfubolta, fótbolta, sundi eða reiðhjólatúrum og reyni svo að ná ballance eftirá með hugleiðslu,“ sagði hann og bætti við að þetta væru öflug trix sem hann notaði nær daglega „til að halda sérí samhengi í samfélagi manna.“ Á öðrum stað í viðtalinu viðraði hann þó ósk sína að opna ADHD inni og útivistar svæði um alla borg þar sem hægt væri að fara í Tarzanleiki og bramla og fara í sérstakt öskurherbergi.

Eyþór Ingi söngvari

Í viðtali við DV árið 2016 ræddi Eyþór Ingi um reynslu sína af því að vera með athyglisbrest. Hann sagði athyglisbrestinn stundum vera til vandræða en honum fylgi einnig ýmsir kostir.

„Ég lendi alveg í svona sóni þegar ég er að semja tónlistarefni hérna heima. Þá gleymi ég umhverfinu í kringum mig og upplifi alveg súperfókus. Ég held að það þurfi sérstakt umhverfi til að geta beitt þannig einbeitingu. Að sitja í skóla með 20 krökkum sem eru allir að blaðra og hávaði mikill … ég gæti aldrei sest niður og byrjað að semja músík í þannig umhverfi. Aðstæðurnar skipta máli.“

Þá rifjaði hann upp eftirminnilegt atvik.

„Einu sinni var ég að spila í Akureyrarkirkju og var nýbúin að fjárfesta í nýjum jakkafötum sem ég var með í poka. Ég hélt á pokanum og var með gítarinn í hinni þar sem ég beið fyrir utan kirkjuna. Þá hringdi allt í einu síminn og það varð bara of mikið í einu fyrir mann með athyglisbrest. Þannig að ég lagði frá mér gítarinn og ákvað að hengja pokann með jakkafötunum upp á biðskylduskilti svo að ég gæti svarað símanum. Svo talaði ég aðeins í símann þangað til að bíllinn kom að sækja mig. Ég skellti á, tók upp gítarinn og settist inn í bíl og keyrði í burtu. Nokkrum klukkutímum síðar áttaði ég mig á því, þegar að ég átti að fara í næsta gigg, að ég var ekki með allt með mér. Það var ekki fræðilegur möguleiki að muna hvað ég hafði gert við jakkafötin. Þannig að ég fékk félaga minn til þess að rúnta með mér um allan bæinn að leita. Svo fann ég þau fjórum klukkustundum síðar, hangandi á biðskyldunni.“

Dorrit Moussieff fyrrum forsetafrú

Dorrit Moussieff er með lesblindu og ADHD líkt og fram kom í viðtali við Verzlunarskólablaðið árið 2012.

„Ég var sett í skóla þegar ég var sex ára gömul. Kennarinn hringdi í föður minn og sagði honum að dóttir hans væri heimsk. Ekki væri nóg með að hún fylgdist ekki með sjálf heldur truflaði hún líka hina nemendurna. Ég er með alvarlega lesblindu og nýlega komst ég að því að ég er með ADHD í ofanálag. Á þeim tíma hélt ég að ég væri bara þannig einstaklingur. Faðir minn tók mig úr skólanum og ég byrjaði að vinna ung í versluninni hans í Ísrael,“ lét Dorrit hafa eftir sér í viðtalinu en ekki varð meira úr skólagöngu hjá henni.

Þórhallur „Laddi“ Sigurðsson leikari, tónlistarmaður og myndlistarmaður

Laddi var í viðtali við Morgunblaðið árið 2013 og kvaðst hafa átt erfitt uppdráttar í barnaskóla. Hann glímdi við mikið óöryggi og minnimáttarkennd.

„Ég var stöðugt að breiða yfir þetta óöryggi með alls konar fíflalátum. Í skólanum var ég aldrei ég sjálfur, heldur alltaf einhver karakter. Ef ég var kallaður upp á töflu, sem mér fannst alveg skelfilegt, þá brást ég við með því að búa til karakter og lét eins og fífl og var rekinn í sætið aftur. Ég var með athyglisbrest, sem þá var kallað að vera tossi, og var í tossabekk. Ég var með hugann alls staðar annars staðar en við námið.

Ég var farinn að halda að ég gæti ekki lært og það var ekki fyrr en ég ákvað að fara í Iðnskólann sem mér fór að ganga vel í námi. Þá var ég að læra fyrir sjálfan mig. Um leið áttaði ég mig á því að ég væri kannski ekki svo vitlaus og öðlaðist meira sjálfstraust.“

Gunnar Nelsson bardagakappi

Í viðtali við SKE sagðist Gunnar Nelson hafa róast með árunum en hann hafi verið til alls vís þegar hann var yngri.

Það býr alveg í manni ennþá en maður hefur lært að beisla þá orku. Ég var hálf ofvirkur. Það var oft verið að reyna setja mann á lyf þegar maður var yngri. En ég er mjög feginn að mamma hafi ekki sett mig á lyf vegna þess að mér finnst hafa ræst ágætlega úr mér.

„Ég hugsa að ég hafi lært mjög vel inn á mína líðan og þá orku sem ég hef. Mér finnst ég hafa lært að beina henni í rétta átt, fundið mér eitthvað að gera sem ég elska og mér finnst ég vera rosalega þakklátur fyrir það. Ég er hriklega orkumikill og ör þrátt fyrir það að ég virki sem rólegur og yfirvegaður. Ég á erfitt með að sitja kyrr og spjalla tímunum saman, þó að það sé ekkert mál að fara í viðtöl. Ég sæki rosalega mikið í eitthvað sem er líkamlegt – eða með því að einbeita mér að einhverju sem ég hef áhuga á. Ég veit ekki alveg hvernig ég ætti að lýsa sjálfum mér … það er örugglega auðveldara að fá vini sína til þess að lýsa manni … maður spáir kannski ekki nógu mikið í því.“

Jón Gnarr, skemmtikraftur, útvarpsmaður, rithöfundur og fyrrum borgarstjóri

Í október 2016 birti Jón Gnarr bráðskemmtilega færslu á facebook þar sem hann lýsti dæmigerðum degi í lífi einstaklings með ADHD.

Jóga (eiginkona Jóns, innskot blm.] var að vinna á sunnudaginn og ég þurfti að keyra Nonna í tvöfalt barnaafmæli í Egilshöll. Jóga fór yfir þetta margsinnis í marga daga og ég horfði alltaf á hana með sama „Ég er ekki fáviti-augnaráðinu.“ Hún skrifaði þetta samt allt niður á miða og skildi eftir á borðstofuborðinu ásamt tveimur þúsundöllum sem voru handa sitthvoru afmælisbarni. Hún sendi mér svo SMS til að minna mig á tímann og að finna umslög til að setja þúsundkallana í. Nonni var líka með þetta á hreinu.

Ég hafði margt að gera á sunnudaginn og tíminn leið hratt. Alltíeinu áttaði ég mig á að við vorum orðnir seinir. Ég fann umslög og dreif Nonna af stað. Ég gleymdi miðanum á borðinu og á leiðinni gleymdi ég hvort þetta var í Egilshöll eða Korputorgi. Ég byrjaði á því að keyra í kringum Egilshöll og kíkja innum allar dyr. Þetta var greinilega ekki þar. Ég hringdi margsinnis í Jógu en hún svaraði ekki. Þannig að ég fór á Korputorg og keyrði nokkra hringi í kringum það þangað til Nonni spurði afhverju ég hringdi ekki bara í aðra mömmuna til að spurja hana. Við gerðum það.  

Þetta var í Egilshöll þannig að við keyrðum þangað. Ég gat ómögulega fundið innganginn þannig að við hringdum aftur í hana og hún var svo vinsamleg að koma út og sækja Nonna. Hann var þá orðinn rúmlega hálftíma of seinn. Þar sem hann var að fara útúr bílnum komumst við að því að ég hafði gleymt að setja peningana í umslögin og skilið þá eftir heima við hliðina á miðanum. Nonni sagði að það væri allt í lagi og bað mig að sækja sig eftir klukkutíma. Ég ákvað að fara í Bauhaus á meðan. Fyrir utan Bauhaus fattaði ég að ég hafði líka gleymt veskinu mínu heima. Það var í öðrum jakka. Ég fór samt inní Bauhaus til að skoða. Þar rakst ég á plastkassa einsog mig hefur lengi vantað. Ég tók hann og var kominn með hann í röðina þegar ég mundi aftur að ég var ekki með veskið. Þá var klukkutíminn að verða liðinn svo ég dreif mig af stað og keyrði annars hugar aftur niðrí Korputorg. Þegar ég renndi í hlaðið mundi ég strax að þetta var í Egilshöll.

Svona eru flestir dagar hjá mér þegar ég á að gera eitthvað einn og óstuddur og ég veit ekki hvar ég væri ef ég ætti ekki mína elskulegu fjölskyldu og þá sérstaklega eiginkonu sem er til í að vera hálfgerður stuðningsfulltrúi í aukavinnu. Og ég er bara svo einlæglega þakklátur fyrir að fólkið mitt skuli ekki vera öskureitt útí mig alltafhreint og alltaf taka þessu ringli af jafnaðargeði. Athyglisbresturinn er líka að versna með aldrinum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Þurfa að búa áfram við skothvelli – Fengu sólarhring til að senda inn athugasemdir

Þurfa að búa áfram við skothvelli – Fengu sólarhring til að senda inn athugasemdir
Fréttir
Í gær

Hvetur héraðssaksóknara og ríkissaksóknara til að segja af sér

Hvetur héraðssaksóknara og ríkissaksóknara til að segja af sér
Fréttir
Í gær

Þorvaldur Lúðvík íhugar réttarstöðu sína eftir Kastljósið í gær – „Ég hefði engu breytt eða gert öðruvísi“

Þorvaldur Lúðvík íhugar réttarstöðu sína eftir Kastljósið í gær – „Ég hefði engu breytt eða gert öðruvísi“
Fréttir
Í gær

Kári segir að útlitið sé dökkt: „Aðal­málið er að markaðirn­ir eru skelfi­leg­ir“

Kári segir að útlitið sé dökkt: „Aðal­málið er að markaðirn­ir eru skelfi­leg­ir“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Leigðu ferðamanni bíl á sumardekkjum í október

Leigðu ferðamanni bíl á sumardekkjum í október
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vopnafjarðarmálið: Jón Þór reyndi að koma sökinni á Hafdísi – „Hann hefur verið mjög duglegur sjálfur að rústa sínu mannorði“

Vopnafjarðarmálið: Jón Þór reyndi að koma sökinni á Hafdísi – „Hann hefur verið mjög duglegur sjálfur að rústa sínu mannorði“