Stefan Octavian Gheorge, klámmyndaleikari og Snapchat stjarna og unnusti hans, Devin Dicksson komu að leiguíbúð sinni galtómri síðastliðið þriðjudagskvöld. Þar að auki hafði leigusali þeirra skipt um lás á útidyrahurðinni og meinaði þeim inngöngu. Parið þurfti að lokum að brjótast inn í búðina. Stefan hefur undanfarnar vikur staðið í deilum við leigusalann en þeim kemur ekki saman um hvaða samkomulag hafi verið gert í upphafi. Stefan kveðst þó hafa næg sönnunargögn undir höndum til að styðja við mál sitt.
Í samtali við DV segir Stefan að hann og unnusti hans hafi tekið íbúðina á leigu þann 15. júlí síðastliðinn, þá nýfluttir heim til Íslands frá Bandaríkjunum. Leigusamningurinn hafi verið munnlegur en samkvæmt Morgunblaðinu var um leigu að ræða sem ekki var gefin upp.
„Við gerðum samkomulag við hana um að við myndum taka íbúðina í gegn, skipta um parket, mála og skipta um ljós. Hún lofaði okkur að hún myndi í staðinn fella niður einn og hálfan mánuð af leigunni og hún borgaði líka efniskostnaðinn.
Stefan segir að engu að síður hafi konan byrjað að hafa samband við þá, tæpum mánuði eftir að þeir fluttu inn og rukkað þá um leigu.
„Við minntum hana á að við hefðum gert samkomulag og við ættum inni einn og hálfan mánuð frían. Samt var hún stöðugt að hringja og reyna að rukka okkur. Eftir að ég var búin að segja henni að það væri ekki að fara gerast þá mætti hún heim til okkar, brjáluð, og sagðist vilja fá okkur út.“
Stefan segist hafa undir höndum myndbandsupptöku af atvikinu auk sms skilaboða sem sýni fram á samkomulagið sem gert var við leigusalann.
„Við vorum síðan búnir að greiða henni 100 þúsund krónur í tryggingargjald og hún bauðst til að fella það niður. Þannig að í rauninni átti fyrsta greiðslan okkar að vera 89 þúsund, sem við greiddum henni síðan þann 20.september.“
Stefan segir tengdason konunnar hafa haft samband 10.október síðastliðinn og spurt hvort þeir gætu lagt 50 þúsund krónur fyrirfram inn á konuna, svo hún gæti borgað reikninga. „17.október lagði ég síðan inn á hana 50 þúsund krónur.
Tveimur dögum síðar, á föstudegi vorum við síðan að fara til London þegar hún kom og spurði út í breytingarnar og spurði hvort við ætluðum nokkuð að skilja íbúðina eftir í rústi. Ég minntist á leiguna að fyrra bragði og sagði henni að ég myndi borga henni. Svo kom sú greiðsla til hennar þremur dögum seinna, eða 23.október.“
Stefan og unnusti hans komu heim frá Londin á þriðjudagskvöldið og brá í brún þegar þeir sáu að búið var að skipta um lyklaskrá.
„Það var semsagt búið að taka hurðina af lömunum, skipta um lás og svo líma hurðina saman aftur. Okkur brá ekkert smá en við vissum auðvitað strax hver hafði gert þetta. Við settumst síðan inn í bíl í smá stund á meðan við vorum að reyna að átta okkur á aðstæðunum.“
Stefan greindi frá atvikinu á Snapchat og birti myndskeið sem sýnir galtóma íbúðina. Greint var myndskeiðinu á vef mbl.is og sagt að innbrotsþjófar hefði látið greipar sópa um íbúðina. Það er hins vegar ekki rétt. Stefan segist hafa hringt í konuna sem hafi svarað og tjáð honum að systir hennar væri að deyja og hún hefði engan tíma til að tala. Hún hafi þvínæst ásakað þá um svik og lygar og að lokum skellt á.
„Ég talaði við vin minn sem er í fasteignabransanum af því að ég vildi vita hver okkar réttur væri. Að lokum sáum við ekkert annað í stöðunni en brjótast inn í íbúðina,“ segir Stefan en parið komst inn í íbúðina með því að brjóta rúðu og skríða inn um gluggann.
„Þá var búið að sópa öllu út og íbúðin var bókstaflega galtóm. Allar eigur okkar voru horfnar, þar á meðal persónulegir munir eins og ættleiðingarskjölin mín og pappírar sem Devin á og innihalda mjög viðkvæmar upplýsingar,“
segir Stefan en hann kveðst hafa haft samband við lögregluna í kjölfarið en verið tjáð að lítið væri hægt að gera þegar um væri að ræða ágreining leigusala og leiganda.
Búslóð parsins var að sögn Stefans komið fyrir í geymslurými úti í bæ og hafa þeir enn ekki fengið allar eigur sínar til baka. „Við eigum eftir að fara yfir allt dótið og sjá hvort eitthvað vantar, auk þess sem við ætlum að fara fram á að fá endurgreitt það sem ég var búin að leggja inn á hana fyrir leigunni.
Stefan kveðst ætla að leita réttar síns í málinu. Hann segist hafa kært konuna til lögreglu og hyggist leggja þar fram gögn sem sýni fram á millifærslur, semog skilaboð sem sýni fram á það samkomulag sem var í gildi þeirra á milli. „En eins og stendur erum við heimilislausir.“
Í Morgunlaðinu er greint frá því að Stefan hafi fengið aðgang að innbúinu í vikunni eftir að hafa lagt fram kæru hjá lögreglu. Leigusalinn kærði Stefan á móti fyrir innbrot.