„Kvenfólkið úr mötuneyti Útvegsbankans fór allt í frí þann 24. Svo karlmenninir þvoðu diskana sína bara upp sjálfir.“ Þetta kom fram í frétt Vísis þann 25. október 1975. Daginn áður var tekið stór skref í jafnréttisbaráttunni, þegar fyrsti Kvennafrídagurinn fór fram og þúsundir kvenna gengu út af vinnustöðum sínum. Á meðan sinntu karlmennirnir störfum kvennanna: ritstörfum, símavörslu, móttöku og barnagæslu og hlutu sumir mikið lof fyrir.
Sjötti Kvennafrídagurinn er í dag og líkt og áður eru íslenskar konur hvattar til að leggja niður störf klukkan 14:55 til að mótmæla kynbundnum launamun og misrétti á vinnustöðum.
Dagblaðið Vísir greindi frá því sem fram fór á fyrsta Kvennafrídeginum, á því herrans ári 1975.
Blaðamaður og ljósmyndari voru staddir í miðborginni þegar útifundurinn á Lækjartorgi fór fram og tóku púlsinn á fólkinu. Heimsóttu þeir meðal annars Útvegsbankann sáluga og vakti það athygli þeirra að karlkyns starfsmenn gengu þar í störf kvennanna.
Bragi Björnsson tók til hendinni í eldhúsinu og hrósar blaðamaður honum fyrir dugnaðinn.
„Hér má sjá einn þann allra faglegasta,“ segir í texta fyrir neðan myndina.
Sumar konur ákváðu þó að sniðganga fundarhöldin og héldu störfum sínum áfram.
„Nokkrar konur voru að vinna í Landsbankanum í gær, þar sem þessi mynd var tekin. Ein kvenna sagði þær fylgjandi baráttu fyrir jafnfrétti kynjanna en teldu aðgerðir eins og kvennafrí ekki rétt vopn í baráttunni,“
segir í grein Vísis.
Tíminn gerði Kvennfrídeginum sömuleiðis skil en í fyrirsögn blaðsins frá 26.október 1975 er Kvennafrídagurinn kallaður „dömufrí.“
„Það var algeng sjón á föstudaginn að sjá feður með börn sín á götum úti,“ ritar blaðamaður.
„Allvíða voru sjoppur opnar og þó nokkrar verzlanir og mátti sjá konur við störf sín þar eins og ekkert væri. Hvarvetna á götum úti mátti sjá karlmenn með börn í kerrum, vögnum eða á handlegg sér og víða á vinnustöðum mættu ferður með börn sín og settu upp myndarlegustu barnagæzlu á stöðunum.“