„Enga manneskju hef ég þekkt sem var jafn örlát á sjálfa sig og Snædísi systur mína.“ Þetta ritar Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndaleikstjóri en í opinni færslu á Facebook minnist hann systur sinnar Snædísar Gunnlaugsdóttur sem lést í fyrradag, 66 ára að aldri.
Greint er frá andláti Snædísar í Morgunblaðinu en Snædís var lögfræðingur að mennt og vann ötullega að umhverfismálum, sérstaklega skógrækt og landgræðslu.
Snædís var búsett á Kaldbak við Húsavík. Hún eignaðist þrjú börn með fyrrum eiginmanni sínum Sigurjóni Benediktssyni: Sylgju Dögg, Hörpu Fönn og Benedikt Þorra. Hún starfaði hjá bæjarfógetanum á Húsavík og sýslumanninum í Þingeyjarsýslu þar til hún stofnaði eigið fyrirtæki í ferðaþjónustu, Kaldbakskot. Auk þess að sitja í stjórnum ýmissa nefnda og félagasamtaka tók Snædís þátt í stjórnmálastarfi á áttunda og níunda áratugnum, bæði fyrir Alþýðubandalagið og óháða og fyrir Bandalag jafnaðarmanna og Þjóðarflokkinn.
„Lífsgleðin ljómaði af henni. Ég var nær fjögurra ára þegar hún fæddist og man enn þegar pabbi fór með mig upp á spítala til að sjá litlu systur nýfædda. Ég man hvernig það var að taka í litlu hendina hennar. Síðan má segja að við höfum haldist í hendur og hún leiddi mig og leiðbeindi mér þegar mest á reyndi,“ skrifar Hrafn í færslu sinni. Hann lýsir systur sinni með orðunum „ósérhlífin, þolinmóð og með glampa af sínu fallega brosi í augum.“
„Hún bjó yfir slíku æðruleysi að það var sama hvað á dundi; aldrei missti hún sjónar á hvernig hægt væri að komast í gegnum erfiðleikana. Hún var sá vinur sem ég gat leitað ráða hjá og talað við af einlægni hvenær sem á þurfti að halda, og fyrir þá vináttu og hjálp er ég þakklátari en orð fái lýst.
Þegar Aron sonur minn kom til Íslands frá Kúbu, tæpra tveggja ára, tók hún honum opnum örmum. Þegar hann var spurður á barnaheimilinu hvar hann vildi helst vera, stóð ekki á svari: hjá Snædísi. Í gegnum árin hefur hún reynst honum sem móðir. Aron fór oft að heimsækja hana til Húsavíkur – stundum einn í flugvél en aldrei hræddur vegna þess að hann vissi að Snædís beið alltaf eftir honum á flugvellinum.
Nú er mikill harmur í hjörtum okkar allra sem áttum Snædísi að.“
Að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag fer bálför fram í kyrrþey. Kveðjuhóf verður haldið að Kaldbak í maí næstkomandi.