31 árs karlmaður hefur verið dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás. Dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur. Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa veist að manni á bifreiðastæði á Akranesi í janúar 2016 og skallað hann í andlitið.
Fram kemur að árásin hafi átt sér stað á bifreiðastæði utan við lager Skagans hf. á Akranesi og að hinn dæmdi hafi veist að brotaþolanum þegar hann steig út úr bifreið sinni. Afleiðingarnar voru þær að brotaþolinn hlaut nefbrot, bólgur og mar á enni, hægra kinnbeini og gagnauga.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu sagði árásarmaðurinn að hann hefði heyrt að brotaþolinn væri að bera það út að hann væri fíkniefnasali. Hann kvaðst hafa hitt brotaþolann þennan morgun og ákveðið að spyrja hann um þetta og segja honum að hætta að bera út um sig ósannar sögur annars myndi hann meiða hann. Sagði hann brotaþolann hafa ráðist á sig og gripið í sig.
Fyrir dómi játaði hann að hafa skallað manninn en neitaði engu að síður sök og hélt því fram að um neyðarvörn hefði verið að ræða.
Fram kemur í dómnum að óljóst sé hver hafi átt upptökin að átökunum. Jafnframt kemur fram að mikill munur sé á hæð og þyngd mannanna tveggja. Hinn dæmdi sé 120 kg og 186 cm á meðan brotaþolinn sé 163 cm og 50 kg. Dómurinn féllst því ekki á þá réttlætingu maðurinn að hann hefði verið að verja sig. Hann var því sakfelldur samkvæmt ákærunni. Auk fangelsisrefsingarinnar er honum gert að greiða málsvarnarlaun verjanda síns að upphæð rúmlega 600 þúsund krónur.