„Umferðartafir eru á Hringvegi 1 í Öxnadal, við Bakkaselsbrekku vegna færðar. Nokkrar bifreiðar eru, þegar þetta er ritað fastar á veginum.“
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Af tilkynningunni að dæma má sjá að vetur er genginn í garð, þó ekki sé nema 1. október. Í tilkynningu segir lögregla að búið sé að hafa samband við Vegagerðina og er hún væntanleg á vettvang til að hálkuverja.
„Við biðjum alla þá sem um Öxnadalsheiði þurfa að fara að sýna biðlund á meðan unnið er að því að greiða úr töfum. Jafnframt er fólki ráðlagt að athuga með ástand hjólbarða og bæta þar úr ef þörf er. Mælum við með því að ætli menn í að leggja á heiðarvegi, þá fari menn ekki á sumardekkjum.“
Meðfylgjandi er skjáskot úr vefmyndavél Vegagerðarinnar sem er staðsett við Bakkaselsbrekku en á henni má sjá að nokkuð hefur snjóað fyrir norðan með tilheyrandi hálku.
Hvetur lögregla ökumenn að lokum til að aka varlega.