fbpx
Mánudagur 05.maí 2025
Fréttir

Lögmenn rifja upp erfið og furðuleg mál

Manndráp á Vegas, klám í Bændahöll og uppgjör Glitnis

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 22. janúar 2018 15:19

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lögmenn starfa í átakaflötum þjóðfélagsins þar sem deilt er um staðreyndir og réttar túlkanir á oft óskýrum textum löggjafans. Á borði þeirra lenda því bæði erfið og furðuleg mál, misalvarleg eins og gefur að skilja. DV spurði nokkra af þekktustu lögfræðingum landsins nokkurra spurninga um ferilinn.

Oddgeir Einarsson

Hví ákvaðst þú að gerast lögmaður?

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á upphafi alheimsins og fór því á eðlisfræðibraut í menntaskóla. Eftir stúdentspróf 1997 var ég þó alls ekki viss um hvað mig langaði að gera í lífinu og fór að vinna við pípulagnir og sem bílstjóri hjá blómaheildsölu. Afi minn sálugi og alnafni hafði oft sagt að það væri eina vitið að fara í lögfræði. Hvorki hann né annar í minni ætt hafði þó numið slíkt að mér vitandi. Held samt að þetta hafi orðið til þess að ég hugleiddi þetta. Um þetta leyti var líka nokkur umræða um svokölluð Guðmundar- og Geirfinnsmál sem mér fannst mjög áhugaverð og ég fékk áhuga á grundvallarréttindum einstaklinga, sér í lagi gagnvart ríkisvaldinu. Ég endaði því einhvern veginn á að prófa lögfræðina. Góður vinur minn ákvað einnig að skella sér í þetta nám og þá varð ekki aftur snúið. Eftir útskrift starfaði ég sem fulltrúi hjá sýslumanninum á Húsavík en var innan árs lokkaður á lögmannsstofu í Reykjavík, einmitt þeirri sem vinur minn starfaði á, þar sem þá vantaði einhvern til að vinna í stóru samkeppnisréttarmáli. Eftir það aflaði ég mér lögmannsréttinda og hef ég starfað sem lögmaður síðan.

Fyrsta málið þitt?

Fyrsta málið sem ég starfaði við á lögmannsstofunni var málið varðandi samráð olíufélaganna. Fyrsta málið sem ég flutti fyrir dómi var hins vegar mál varðandi ólögmæta gjaldtöku veitufyrirtækis.

Erfiðasta málið?

Eðli málsins samkvæmt get ég ekki lýst hvernig þessi mál voru nema að höfðu samráði við umbjóðendur mína. Erfiðustu málin eru alla jafna mál er varða börn og forsjá þeirra. Ég hef flutt allmörg slík mál. Meðferð slíkra mála fyrir dómstólum er alltaf erfið fyrir aðila málsins og stundum fyrir lögmenn einnig. Það slæma við þessi mál er að sú mynd sem dómarar fá af stöðunni er aldrei fullkomin og það er ekki hægt að tryggja að niðurstaðan verði alltaf í samræmi við það sem er barninu fyrir bestu þótt auðvitað sé það alltaf það sem að er stefnt.
Auk þess er alltaf erfitt að vinna fyrir menn sem eru í gæsluvarðhaldi vikum og jafnvel mánuðum saman vegna einhvers sem þeir staðhæfa að þeir hafi ekki gert og jafnvel liggur ekki fyrir að þeir hafi gert.

Klámfólki úthýst úr Bændahöllinni

Þjóðfélagið fordæmdi komu klámfólks

Þjóðfélagið fordæmdi komu klámfólks

Ráðstefna netklámsfyrirtækja, Snowgathering, átti að fara fram á Radison SAS hótelinu dagana 7. til 11. mars árið 2007 og áætlað var að taka upp myndefni hér á landi. Á meðal þeirra klámstjarna sem boðuðu komu sína voru Daisy Rock, Eva Angel og Sandy Cage. En koma klámfólksins olli úlfaþyt í samfélaginu og eigendur hótelsins ákváðu tveimur vikum fyrir ráðstefnuna að meina fólkinu að halda hana þar. Meðal þeirra sem lögðust gegn ráðstefnunni var Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri. Ekki reyndist mögulegt að finna nýjan stað hér á landi með svo skömmum fyrirvara og auk þess sagði Christina Ponga skipuleggjandi að sennilega myndu aðrir heldur ekki vilja taka við hópnum.

Furðulegasta málið?

Af mörgum sérkennilegum málum ætli það hafi þá ekki verið skaðabótakrafa frá erlendum aðilum í klámiðnaðnum á hendur hóteli í Reykjavík á því herrans ári 2007. Ætluðu þessir aðilar að halda einhvers konar ráðstefnu hér á landi. Biskup Íslands, borgarstjórn Reykjavíkur, Prestafélag Íslands og fleiri aðilar ályktuðu um andúð sína á þessu. Svo fór að hótelið sagði upp samningum um gistingu fjölda fólks á síðustu stundu. Fram kom í fjölmiðlum að á sama tíma og hótelið ætlaði ekki að virða samninga við þessa ósiðlegu gesti seldi það sjálft klám á herbergjum sínum.

Sætasti sigurinn á ferlinum?

Ég reyni að taka ekki sigrum eða töpum persónulega enda vinn ég bara hvert mál eins vel og hægt er og læt dómarana um að dæma þau. Ég lít því ekki svo á að ég sé að vinna eða tapa málum sem ég flyt. Auðvitað gleðst maður þó alltaf fyrir hönd umbjóðenda sinna þegar fallist er á kröfur þeirra. Ég man vel eftir máli konu, sem var af erlendu bergi brotin, sem héraðsdómur hafði úrskurðað að lögheimili dóttur hennar ætti til bráðabirgða að vera hjá föðurnum. Þegar ég hringdi í hana til að tilkynna henni um að Hæstiréttur hefði snúið úrskurðinum við og dæmt að lögheimilið ætti að vera hjá henni grét hún bara á milli þess sem hún orgaði af gleði.

Mest svekkjandi ósigurinn?

Var eitt sinn að vinna í skaðabótamáli fyrir stálheiðarlegan og grandvaran mann sem hafði lent í mjög slæmu vinnuslysi og var algerlega óvinnufær eftir það. Héraðsdómur hafði fallist á kröfur hans og dæmt honum háar bætur. Hæstiréttur sneri þó dómnum við og sýknaði tryggingafélagið alfarið. Ég var ósammála niðurstöðunni, fannst mjög erfitt að þurfa að tilkynna fjölskyldu mannsins um þessi málalok.

„Í einu tilviki fór hinn látni að skipta sér af skiptum í gegnum drauma erfingja“
Steinunn Guðbjartsdóttir „Í einu tilviki fór hinn látni að skipta sér af skiptum í gegnum drauma erfingja“

Steinunn Guðbjartsdóttir

Hví ákvaðst þú að gerast lögmaður?

Ég stefndi alltaf á að fara í læknisfræði og skráði mig í það nám að loknu stúdentsprófi. Sumarið fyrir háskólanám varð ég vitni að sviplegu dauðsfalli og ákvað þá að læknisfræði væri ekki fyrir mig. Það var því tilviljun að ég skráði mig í lögfræði en eftir því sá ég ekki því námið og starfið átti vel við mig.

Fyrsta málið þitt?

Einfalt skuldamál en stórt í mínum huga þar sem þetta var fyrsta málið. Sú tilfinning að fara í skikkjuna í fyrsta skipti og lotningin fyrir verkefninu og ábyrgðin sem ég upplifði við að vera treyst fyrir máli gleymist aldrei.

Erfiðasta málið?

Mörg af þeim kynferðisbrotamálum sem ég tók á árum áður tóku mjög á. Þetta voru einu málin sem ég tók með mér heim. Löngu eftir að málunum lauk átti átti ég það til að fylgjast með hvernig brotaþolunum reiddi af sérstaklega þar sem um var að ræða börn eða unga og ómótaða einstaklinga.

Nauðasamningar Glitnis

Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis

Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis

Í kjölfar bankahrunsins í október árið 2008 yfirtók Fjármálaeftirlitið Glitni, áður Íslandsbanka, samkvæmt neyðarlögunum og var skilanefnd sett yfir reksturinn. Nýi Glitnir, nú Íslandsbanki, var settur á laggirnar og tók hann við sumum eignum og skuldbindingum hins gamla Glitnis. Fengu þá kröfuhafarnir 95% hlut í hinum nýja Glitni. En vegna gjaldeyrishafta voru þeir fastir með eignir hér á landi og við tók langt og strangt samningaferli sem lauk með nauðasamningum slitabús hins gamla Glitnis í nóvember árið 2015. Fékk íslenska ríkið þá Glitni með svokölluðu stöðugleikaframlagi og á nú bankann að fullu.

Furðulegasta málið?

Furðulegustu málin tengdust skiptum á dánarbúum. Þar á almenn skynsemi það til að víkja fyrir tilfinningum og gömlum óútkljáðum deilum. Þannig eru litlir hlutir gerðir að stórmáli. Að finna út hver á að fá matarstellið verður stærra mál en ráðstöfun á verðmætari eignum. Margt furðulegt kom upp á í þessum málum, í einu tilviki fór hinn látni að skipta sér af skiptum í gegnum drauma erfingja. Þá skiptir mestu að leiða skjólstæðingana á rétta braut og gefa þeim tíma til að jafna sig á aðstæðum.

Sætasti sigurinn á ferlinum?

Án efa að ná að klára nauðasamninga Glitnis í sátt við kröfuhafa og þjóðarbúið. Málið tók átta ár af starfsævinni og virkaði á köflum óyfirstíganlegt.

Mest svekkjandi ósigurinn?

Hef í raun aldrei upplifað ósigur í þeim skilningi. Mál sem rata fyrir dómstóla gera það af ástæðu og það eru alltaf tvær hliðar á öllum málum. Niðurstaða dómstóla er niðurstaða sem ber að virða þótt maður sé ekki alltaf sammála henni.

„Allt að einu þorði enginn að trufla bændurna er urðu sífellt háfleygari í lýsingu á mannkostum hvor annars“
Jón Þór Ólason „Allt að einu þorði enginn að trufla bændurna er urðu sífellt háfleygari í lýsingu á mannkostum hvor annars“

Jón Þór Ólason

Hví ákvaðst þú að gerast lögmaður?

Mig langaði alltaf að öðlast fjölbreytta starfsreynslu. Áður en ég fór í lögmennsku hafði ég starfað í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, sem aðstoðarmaður dómara, hjá ákæruvaldinu auk þess sem ég byrjaði nánast að kenna við lagadeild Háskóla Íslands frá útskrift. Því lá það beinast við að takast á við lögmennskuna sem er mjög krefjandi en hentar mér mjög vel þar sem ég er mikill keppnismaður að eðlisfari.

Fyrsta málið þitt?

Fyrsta málið sem ég flutti fyrir dómi varðaði fjárhagslegt uppgjör í tengslum við rekstur skemmtistaðar, það er svona hefðbundið skuldamál.

Erfiðasta málið?

Það fer eftir því hvaða skilning við leggjum í hugtakið „erfitt“. Mál geta verið misjöfn að vöxtum og flækjustigi en ég hef hingað til ekki átt í miklum erfiðleikum með að ná utan um mál sem eru bæði mjög umfangsmikil og í senn flókin. Það eru hins vegar einnig oft skemmtilegustu málin.

Deilurnar um lónið

Hundruðir þúsunda heimsækja Jökulsárlón árlega

Hundruðir þúsunda heimsækja Jökulsárlón árlega

Árið 2014 hófust deilur um hvaða aðilar myndu fá að byggja upp aðstöðu á jörðinni Felli við Jökulsárlón, einum fjölfarnasta ferðamannastað landsins, samkvæmt deiliskipulagi sveitarfélagsins Hornafjarðar. Aðilarnir voru Jökulsárlón ehf. sem átti 23% í jörðinni og Ice Lagoon sem var í samstarfi við meirihluta eigenda jarðarinnar. Jörðin var sett á nauðungarsölu haustið 2016 og keypti félagið Fögrusalir hana á 1,5 milljarða króna. Tveimur mánuðum síðar nýtti íslenska ríkið sér forkaupsrétt á jörðinni en forsvarsmenn Fögrusala töldu frestinn útrunninn og höfðuðu mál. Í nóvember var íslenska ríkið sýknað í héraði en því hefur þegar verið áfrýjað til Hæstaréttar.

Furðulegasta málið?

Ég man nú ekki eftir neinu máli sem gæti fallið undir þá skilgreiningu að teljast „furðulegt“ en það koma oft upp ýmis atvik sem kunna að þykja spaugileg. Umbjóðendum lögmanna sem lenda í málaferlum þykja mál sín að engu leyti furðuleg, heldur vilja þeir ná fram réttlæti hvað þá varðar. Ég man nú hins vegar eftir því þegar ég var á kúrsus við einn héraðsdómstól landsins, þá fór ég í vettvangsgöngu í landamerkjamáli ásamt dómurum og aðilum málsins. Þar rifust tveir virðulegir eldri bændur í um hálftíma um hvar tiltekin tjörn hefði verið staðsett fyrir einhverjum hundruðum ára, en landamerkin áttu meðal annars að liggja í gegnum miðja tjörnina. Þessi tjörn var sem sagt löngu uppþornuð og raunar útilokað að fullyrða um staðsetningu hennar. En allt að einu þorði enginn að trufla bændurna er urðu sífellt háfleygari í lýsingu á mannkostum hvor annars. Okkur fannst þetta kannski furðuleg uppákoma en fyrir aðila málsins var þetta dauðans alvara.

Sætasti sigurinn á ferlinum?

Það eru ýmis mál sem koma þar til greina, en ef ég ætti að velja eitt þá væri það gallamál er ég flutti, en sú fasteign sem um ræðir var komin vel til ára sinna. Ég náði fram riftun í málinu í gagnsök auk greiðslu skaðabóta. Það eru vægast sagt mjög fá mál þar sem slík niðurstaða hefur fengist í dómsmálum og því var niðurstaðan sérstaklega ánægjuleg fyrir umbjóðendur mína sem voru með allt undir í málinu.

Mest svekkjandi ósigurinn?

Það er mál er varðaði forkaupsrétt íslenska ríkisins á Jökulsárlóni sem að mínu viti hafði fallið niður sökum þess að íslenska ríkið hefði beint yfirlýsingu um nýtingu forkaupsréttarins of seint í skilningi laga, en meginreglan er sú að forkaupsréttarákvæði ber að skýra þröngri lögskýringu. Hins vegar var niðurstaða dómsins sú að túlka ákvæðið rýmkandi lögskýringu sem ég tel einfaldlega ranga lögskýringu. En málið er nú til meðferðar hjá Hæstarétti og ég trúi raunar ekki öðru en að þar fáist hagfelld niðurstaða.

Árni Helgason

Hví ákvaðst þú að gerast lögmaður?

Einfaldlega vegna þess að lögfræðin og svo lögmennskan er einstaklega áhugavert dæmi, þar sem unnið er með fólki á mikilvægum augnablikum í lífi þess. Þetta snýst um hegðun og hagsmuni fólks og hvernig þeir snúa gagnvart öðrum í samfélaginu; fólki, fyrirtækjum og stjórnvöldum. Stundum er hægt að sameina þessa hagsmuni og semja um úrlausn mála en stundum þarf að leita niðurstöðu fyrir þar til bærum aðilum, dómstólum eða kærunefndum.

Fyrsta málið þitt?

Við byrjuðum okkar rekstur á því herrans ári 2009 þegar annar hver Íslendingur átti í útistöðum við lánastofnanir og slitabú landsins. Fyrsta málið litaðist af því; ég tók til varna í útburðarmáli fyrir einstakling gegn banka en hafði þó úr heldur litlu að moða og var fyrst og fremst til þess að kaupa smá tíma í málið og reyna sættir.

„Sakamál geta verið mjög erfið og tekið á og líka erfiðar deilur í fjölskyldum“
Árni Helgason „Sakamál geta verið mjög erfið og tekið á og líka erfiðar deilur í fjölskyldum“

Erfiðasta málið?

Það er nú ekkert eitt sem stendur sérstaklega upp úr. En sakamál geta verið mjög erfið og tekið á og líka erfiðar deilur í fjölskyldum.

Furðulegasta málið?

Það furðulegasta sem ég hef lent í var þegar ég fór einn morguninn fyrir nokkrum árum niður í Héraðsdóm Reykjavíkur og lagði þar inn stefnu á hendur konu vegna ágreinings um réttmæti reiknings frá iðnaðarmanni sem var minn skjólstæðingur. Málið varðaði ekki háar fjárhæðir en þegar hún mætti fyrir dóminn þá tók hún við stefnunni og hafði ýmis orð um málatilbúnaðinn og gaf honum ekki háa einkunn. Jæja, það var eins og það var og verkefni dagsins héldu áfram og næsta stopp hjá mér þennan morguninn, kannski rúmum hálftíma eftir að ég var niðri í dómi, var að keyra upp í eitt úthverfi borgarinnar þar sem fara átti fram nauðungarsala vegna annars umbjóðanda sem hafði óskað eftir því að ég yrði viðstaddur. Ég legg fyrir utan húsið og hringi bjöllunni. Eftir nokkra stund er opnað og þá kemur til dyra sama konan og ég hafði átt orðaskipti við skömmu áður niðri í héraðsdómi. Við horfum bæði mjög skringilega á hvort annað í smástund og svo átta ég mig loksins á því að ég hafði víxlað stöfum í húsnúmerinu og var því á vitlausum stað. En ég hef alltaf velt því fyrir mér hvað hafi farið í gegnum huga þessarar ágætu konu þegar hún sá mig – sennilega haldið að ég hafi elt hana úr dómnum og ætlað að halda áfram að innheimta reikninginn.

Sætasti sigurinn á ferlinum?

Sætustu sigrarnir tengdust málum þar sem unnið var fyrir fólk í tengslum við skuldamál í kjölfar hrunsins.

Mest svekkjandi ósigurinn?

Ég var einu sinni verjandi í sakamáli hjá manni sem hafði verið sakaður um líkamsárás. Við aðalmeðferð málsins gerðist það að sá, sem varð fyrir líkamsárásinni, fullyrti að minn maður hefði ekki ráðist á sig. Það stöðvaði dómarann þó ekki í að dæma minn skjólstæðing sekan. Það skal þó tekið fram að þessari niðurstöðu var snúið við í Hæstarétti.

„Starf lögmannsins er erfitt og maður lendir oft í því að vera boðberi válegra tíðinda“
Bjarni Hauksson „Starf lögmannsins er erfitt og maður lendir oft í því að vera boðberi válegra tíðinda“

Bjarni Hauksson

Hví ákvaðst þú að gerast lögmaður?

Ég vildi fást við fjölbreytt lögfræðileg verkefni og taldi lögmannsstarfið hentugasta vettvanginn. Þá taldi ég mikinn kost að geta starfað sjálfstætt. Það býr svolítill Bjartur í Sumarhúsum í mörgum lögmanninum held ég.

Fyrsta málið þitt?

Fyrsta alvöru málið sem ég flutti fyrir dómi snerist um fiskveiðibrot. Var kannski ekki stórt eða alvarlegt, en auðvitað eru öll mál stór og alvarleg fyrir þá sem eiga í hlut. Þetta mál vatt nú reyndar talsvert upp á sig og meðal annars var tekist á um lagastoð reglugerðar, sem þýddi að dómarinn taldi rétt að kalla til meðdómanda sem væri sérfræðingur í stjórnskipunarrétti. Minn gamli lærifaðir, Sigurður Líndal, varð fyrir valinu sem sérfræðingurinn og það gaf þessu öllu saman talsvert gildi. Hans framlag var athyglisvert, eins og búast mátti við.

Erfiðasta málið?

Get ekki nefnt eitt sérstakt mál, en öll mál þar sem skjólstæðingar mínir hafa sætt einangrun í gæsluvarðhaldi í langan tíma hafa tekið á. Þá er lögmaðurinn í hlutverki sálgæslumanns og það þarf að gefa sér tíma í samskipti við skjólstæðinginn sjálfan og aðstandendur hans sem oft eiga mjög erfitt. Starf lögmannsins er erfitt og maður lendir oft í því að vera boðberi válegra tíðinda.

Furðulegasta málið?

Man ekki eftir neinu sérstöku, en hef oft lent í furðulegum uppákomum. Manni lærist fljótt í þessu starfi að það eru til allar tegundir af fólki og lífið getur endalaust komið á óvart.

Vegas-málið

Sverrir Þór Einarsson gengur í dómsal

Sverrir Þór Einarsson gengur í dómsal

Aðfaranótt þriðjudagsins 13. maí árið 1997 brutust út áflog á skemmtistaðnum Vegas við Frakkastíg. Fékk einn maður mikið spark í höfuðið og blæðingu inn á heila. Reynt var að bjarga honum með aðgerð en hann lést á Landspítalanum um sólarhring eftir átökin. Tveir menn, Sverrir Þór Einarsson og Sigurþór Arnarsson, voru ákærðir fyrir að valda dauða mannsins og var Sverrir dæmdur sekur í september sama ár og hlaut tveggja ára fangelsisdóm. Hann áfrýjaði og voru þeir þá báðir dæmdir í Hæstarétti og úrskurðað að Sigurþór hefði átt upptökin að slagsmálunum. Sigurþór áfrýjaði til Mannréttindadómstólsins, vann og fékk endurupptöku málsins. Var upprunalegi sýknudómurinn staðfestur af Hæstarétti í desember 2012 og fékk Sigurþór síðar dæmdar tæplega 19 milljónir króna í bætur vegna frelsissviptingar.

Sætasti sigurinn á ferlinum?

Ætli það sé ekki svokallað Vegasmál sem ég fékk endurupptekið fyrir Hæstarétti árið 2012. Það er sjaldan fallist á endurupptöku mála og sú ákvörðun var því mikill sigur. Minn skjólstæðingur var síðan sýknaður í Hæstarétti og það var aftur góður sigur fyrir mig. Síðan voru manninum dæmdar talsverðar bætur og enn og aftur var það sætur sigur enda varðist ríkið bótakröfunni með kjafti og klóm fyrir dómi. Það var líka mikill sigur að fá unga konu sýknaða í mjög stóru fíkniefnamáli árið 2010 þar sem mikið var undir. Meðákærða í því máli fékk átta ára fangelsi, en skjólstæðingur minn, sem var einstæð móðir í háskólanámi, gat haldið lífi sínu áfram og gengur vel í dag, eftir því sem ég best veit.

Mest svekkjandi ósigurinn?

Þessi er ekki auðveld en ég á mjög erfitt með að sætta mig við niðurstöðu Hæstaréttar í máli frá í fyrrasumar, þar sem tveir menn voru sakfelldir fyrir kynferðisbrot. Tel að niðurstaða um sakfellingu beggja mannanna sé röng og ég leiði hugann að því reglulega.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Saka á sér draum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hrottaleg handrukkun: Þrír menn ákærðir fyrir frelsissviptingu

Hrottaleg handrukkun: Þrír menn ákærðir fyrir frelsissviptingu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Siggi stormur veltir fyrir sér verðyfirlýsingum Bónus – „Einu sinni var talað um „hækkun í hafi““

Siggi stormur veltir fyrir sér verðyfirlýsingum Bónus – „Einu sinni var talað um „hækkun í hafi““