Tillaga Hildar Björnsdóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að gera bólusetningar að skilyrði við innritun barna á leikskólum Reykjavíkur var felld niður á fundi borgarstjórnar í gær. Töluverð umræða spratt upp í kjölfar þess að Hildur greindi frá því á facebook á dögunum að hún myndi leggja tillöguna fram á næsta borgarstjórnarfundi. Ljóst er að sitt sýnist hverjum um bannið.
Í greinargerð Hildar er lagt til að barn skuli „eingöngu hljóta innritun á leikskóla hafi það hlotið, og muni það áfram hljóta, allar þær bólusetningar sem sóttvarnarlæknir mælir með frá þriggja mánaða aldri til fjögurra ára aldurs.“ Undantekningar frá skilyrðinu megi veita ef læknisfræðilegar ástæður eða erfiðar félagslegar aðstæður hamla bólusetningu.
„Þátttaka í almennum bólusetningum á Íslandi er ekki viðunandi að mati sóttvarnarlæknis. Minnki þátttaka enn frekar má búast við að hérlendis fari að breiðast út sjúkdómar sem ekki hafa sést um árabil.“
Jafnframt benti Hildur á að óbólusettum börnum fer fjölgandi og er hlutfall þeirra nú 9 prósent.
„Talið er að eingöngu um 2 prósent foreldra séu mótfallin bólusetningum. Af tölfræðinni má því ætla að um 7 prósent barna séu óbólusett af öðrum ástæðum. Foreldrar þessara barna eru í langflestum tilfellum að gleyma sér. Heilsugæslur hafa hrint af stað fræðslu- og eftirfylgniátaki en átakið virðist ekki hafa skilað tilætluðum árangri.“
Í samantekt tók Hildur fram að sóttvarnarlæknir telur ekki þörf á þessu stigi að skyldubinda bólusetningar.
„Það skal þó haft í huga að sóttvarnarlæknir setur ekki inngönguskilyrði á leikskóla. Það gera sveitarfélög með heimild í lögum um leikskóla nr. 90/2008. Sóttvarnarlæknir gefur ekki út tilmæli um skyldubundnar bólusetningar nema faraldur fari af stað hérlendis. Það er hins vegar pólitísk ákvörðun hvort sveitarfélög vilji ráðast í fyrirbyggjandi aðgerðir. Það er djarft skref sem borgarstjórn getur stigið með samfélagslega hagsmuni og lýðheilsu að leiðarljósi.“
Tillaga Hildar var felld niður með þrettán atkvæðum gegn tíu. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tók til máls eftir að Hildur hafði flutt tillöguna.
Hann sagðist vera einarður stuðningsmaður bólusetninga og greindi jafnframt frá því að sjálfur hefði hann verið á leið í framhaldsnám í smitsjúkdómalækningum áður en hann fór út í pólitíkina. Þá benti hann á að þó að þáttaka í bólusetningum sé ófullnægjandi þá væri ekki tímabært að gera þær að skilyrði, enda væru ekki almannahagsmunir í húfi.
„Þegar um er að ræða lífshættulega, lífshótandi sjúkdóma eða sjúkdóma sem geta valdið heilaskaða þá falla þeir klárlega í þann flokk. Þannig að ef það væri um að ræða að brýn hætta stafaði af, að þá getur það verið réttlætanlegt.“