fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Tóku stóran bita af Hörpuhótelinu

Finnur Reyr, Hjörleifur Jakobsson og Hreggviður Jónsson umsvifamiklir í fjármögnun lúxushótelsins

Ritstjórn DV
Föstudaginn 21. október 2016 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Finnur Reyr Stefánsson, Hjörleifur Þór Jakobsson og Hreggviður Jónsson eru umsvifamestir í hópi þeirra einkafjárfesta sem koma að fjármögnun lúxushótelsins við Hörpu. Eigendur fjárfestingarfélagsins Varða Capital eru það einnig en innlendir og erlendir einka- og stofnanafjárfestar hafa samkvæmt heimildum DV lofað alls 17 milljónum dala, jafnvirði um 1,9 milljarða króna, til hótelsins.

Fjárfesta saman

Innlendir og erlendir einkafjárfestar, aðrir en þeir sem koma að fjármögnun fimm stjörnu Marriott Edition-hótelsins í gegnum bandaríska fasteignafélagið Carpenter & Company, eiga nú 42,5 prósent af hlutafé þess en fjármögnuninni lauk í byrjun október. Samkvæmt upplýsingum DV eru Grímur Garðarsson, Jónas Hagan Guðmundsson og Edward Mac Gillivray Schmidt í þeim hópi en þremenningarnir eiga Vörðu Capital. Fjárfestingarfélag þeirra á meðal annars átta prósenta hlut í Kviku fjárfestingarbanka og helming í hlutafélaginu Grunnur I sem hefur fjárfest í fasteignauppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu.

Finnur Reyr hefur sömuleiðis komið að uppbyggingu Grunns I í gegnum Klasa fjárfestingu hf. sem á helming í félaginu á móti Vörðu Capital. Fjárfestingarfélag Finns og Steinunnar Jónsdóttur, fjárfestis og eiginkonu hans, Snæból ehf., á helmingshlut í Siglu ehf. sem aftur á 95 prósent í Klasa. Félögin Sigla og Snæból eru einnig í hópi stærstu hluthafa Kviku, með samanlagt um 9,5 prósenta hlut, og er Finnur Reyr varaformaður stjórnar bankans. Þá á Snæból 7,1 prósents hlut í Sjóvá sem gerir félagið að þriðja stærsta hluthafa tryggingafyrirtækisins. Bókfært virði allra eigna Snæbóls nam í árslok 2015 um 7,5 milljörðum króna en það ár var félagið rekið með tæplega 1,4 milljarða króna hagnaði. Hjónin hafa verið áberandi í íslensku viðskiptalífi síðastliðin ár og í frétt Morgunblaðsins í nóvember 2014 kom fram að félög í þeirra eigu komu þá að byggingu íbúða á höfuðborgarsvæðinu fyrir 8.400 íbúa.

Keypti næstu lóð

Hjörleifur Þór Jakobsson var forstjóri Hampiðjunnar frá 1999 og þangað til hann varð forstjóri Olíufélagsins Esso árið 2002. Var hann um tíma einn nánasti samstarfsmaður Ólafs Ólafssonar, aðaleiganda Samskipa, og stýrði þá fjárfestingarfélaginu Kjölur sem var stór hluthafi í gamla Kaupþingi og sat í stjórn bankans. Eignarhaldsfélag Hjörleifs og eiginkonu hans, Hjördísar Ásberg, Feier ehf., seldi tæplega fjórtán prósenta hlut í Hampiðjunni í maí 2014 á 1.371 milljón króna. Hagnaður félagsins af sölunni nam 760 milljónum króna. Í ágúst 2013 greindi DV frá því að Hjörleifur hefði komið með 600 milljónir króna hingað til lands í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands og fjárfest í Hampiðjunni og Öryggismiðstöð Íslands.

Hreggviður Jónsson, stjórnarformaður Festis og Veritas, sagði í samtali við DV í ágúst síðastliðnum að hann væri að skoða að fjárfesta í hótelinu. Hann og Eggert Dagbjartsson, íslenskur fjárfestir búsettur í Boston sem er hluthafi í Carpenter & Company, höfðu þá keypt 80 prósenta hlut í Kolufelli ehf. sem á byggingarreit við hlið Hörpu sem átti áður að fara undir hótelið. Félagið hafði þá hafið framkvæmdir við verslunar- og íbúðarhúsnæði á lóðinni en annar fjárfestahópur sem vildi áður byggja þar hafði áform um mun stærri hótelbyggingu en nú er gert ráð fyrir.

Á 20% hlut

Heimildir DV herma að eigendur Carpenter & Company hafi skráð sig fyrir 20 prósentum af hlutafé hótelsins sem nam alls 40 milljónum dala, eða 4,6 milljörðum króna. DV greindi í lok september frá því að framtakssjóðurinn SÍA III myndi fjárfesta í verkefninu fyrir um 15 milljónir dala. Sjóðurinn er í stýringu Stefnis, dótturfélags Arion banka, og eigendahópur hans samanstendur af lífeyrissjóðum, fjármálafyrirtækjum og fagfjárfestum. Í frétt DV kom fram að Lífeyrissjóður verslunarmanna, LSR og Gildi lífeyrissjóður, þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins, hefðu hafnað boði Stefnis, sem var lagt fram í umboði forsvarsmanna Carpenter, um að þeir fjárfestu í eigin nafni í hótelinu. Þeir tóku aftur á móti þátt í fjármögnuninni í gegnum SÍA III. Arion banki myndi síðan lána um 90 milljónir dala sem vantaði til að loka henni.

Carpenter & Company keypti hótellóðina við Hörpu af Kolufelli í ágúst 2015. Samkvæmt tilkynningu sem Stefnir sendi fjölmiðlum þann 7. október síðastliðinn er gert ráð fyrir að hótelið, sem á fullklárað að kosta 130 milljónir dala, verði opnað í lok árs 2018.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar