Paul Clement, stjóri Reading, hefur svarað framherjanum Darren Bent sem gagnrýndi fyrrum þjálfara sinn á dögunum.
Bent vann með Clement hjá Derby fyrir um þremur árum áður en sá síðarnefndi var rekinn þrátt fyrir að vera í fimmta sæti Championship-deildarinnar.
Bent segir að Clement hafi ekki höndlað það að stýra Derby en þetta var hans fyrsta starf sem aðalþjálfari.
,,Það var alltaf að koma að því að hann myndi brotna niður hjá Derby,“ sagði Bent á meðal annars.
,,Æfingarnar höfðu breyst og hugmyndafræðin frá undirbúningstímabilinu var alveg farin því við vorum ekki að ná í rétt úrslit. Hann þoldi ekki þegar leikmenn kvörtuðu við hann.“
Clement hefur nú svarað Bent sem fékk ekki mikið að spila undir stjórn hans hjá Derby.
,,Ég skynja biturleika hérna sem ér skiljanlegt þegar leikmaður fær ekki mikið að spila,“ svaraði Clement.
,,Það er aldrei erfið ákvörðun að skilja eftir leikmann sem er allt of þungur og latur.“