Stjarnan þurfti að sætta sig við tap í Evrópudeildinni í kvöld er liðið mætti danska liðinu FC Kaupmannahöfn.
Þeir dönsku reyndust of stór biti fyrir Stjörnuna í kvöld og höfðu að lokum betur með tveimur mörkum gegn engu.
Hér má sjá það góða og slæma úr leiknum.
Plús:
Fyrri hálfleikur Stjörnumanna var mjög góður. Gáfu ekki of mörg færi á sér og var staðan alls ekki slæmt eftir fyrstu 45.
FCK er ekki að upplifa sína bestu tíma en liðið sýndi gæði sín í síðari hálfleik í dag. Vel spilandi fótboltalið.
Það má gefa Stjörnunni það að þeir reyndu mun meira undir lok leiksins. Eftir seinna mark FCK var sett púður í sóknina, eitthvað sem hefði mátt gerast fyrr.
Viktor Fischer kom inná hjá FCK í síðari hálfleik og hann breytti þessum leik fyrir liðið. Talinn einn efnilegasti leikmaður Dana á sínum tíma og það er góð ástæða fyrir því. Hann lagði upp fyrra mark liðsins og skoraði það seinna.
Fischer er danskur landsliðsmaður og það sást alveg í kvöld af hverju Middlesbrough ákvað að kaupa hann frá Ajax á sínum tíma. Hann á að baki 13 leiki í ensku úrvalsdeildinni.
Stemningin var frábær í Garðabæ. Silfurskeiðin stendur alltaf fyrir sínu og þá sérstaklega í Evrópuleikjum.
Mínus:
Stjarnan bakkaði allt of mikið í seinni hálfleik. Strax eftir upphafsflautið var nánast allt liðið komið inn í eigin vítateig.
FCK fékk nokkur mjög ákjósanleg færi eftir að Stjarnan hafi í raun bara lagt rútunni strax. Gáfu þeim alvöru leik í fyrri hálfleik og ég skil ekki hugsunina á bakvið þetta.
Það var eins og þeir íslensku hafi verið hræddir í síðari hálfleik. Vildu ekki halda áfram að spila eins bolta og þeir gerðu í þeim fyrri.
Útlitið er ekki bjart fyrir Stjörnuna. Síðari leikurinn í Danmörku verður enn erfiðari og að vera 2-0 undir er ekki vænlegt.