Meintur gerandi er heimamaður á þrítugsaldri
Lögreglan í Vestmannaeyjum rannsakar alvarlega líkamsárás sem átti sér stað aðfaranótt laugardags. Talið er að meintur gerandi sé á þrítugsaldri en konan útskrifaði sig sjálf af Landspítalanum í gær.
Forsaga málsins er sú að nakin kona á fimmtugsaldri fannst utandyra í austurhluta bæjarins með alvarlega áverka á höfði.
Grunur leikur á að hún hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi. Þetta staðfestir Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum í samtali við DV.
Fórnarlambið sem er frá Vestmannaeyjum var flutt með sjúkraflugi á Landspítalann í Fossvogi þar sem gert var að sárum hennar.
Sömu nótt var maður handtekinn á heimili sínu í bænum, grunaður um árásina. Hann ku vera heimamaður í Vestmannaeyjum á þrítugsaldri.
Farið var fram á gæsluvarðhald yfir manninum á grundvelli meintrar líkamsárásar og hættubrots en þeirri beiðni var hafnað af héraðsdómi.
Hinum grunaða var sleppt úr haldi um hádegisbil á sunnudag. Úrskurður héraðsdóms var kærður til Hæstaréttar og er niðurstöðu að vænta á morgun.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur konan enn ekki lagt fram kæru á hendur manninum en Páley sagði í samtali við DV í gær að skýrslutöku væri aðeins lokið að hluta til. Í Fréttablaðinu er jafnframt greint frá því að konan sé höfuðkúpubrotin en hafi útskrifað sjálfa sig af Landspítalanum í gær.