Það var mikið talað um frammistöðu rússnenska landsliðsins á HM og þá sérstaklega eftir leik við Króatíu í 8-liða úrslitum.
Leikmenn Rússa virtust í mun betra standi en leikmenn Króata undir lok leiksins sem var spilaður í 120 mínútur eftir framlengingu.
Rússar voru ásakaðir um að taka inn ólögleg efni fyrir leiki sína á mótinu en liðinu gekk mun betur en margir áttu von á.
Læknir rússnenska landsliðsins hefur nú staðfest það að leikmenn liðsins hafi sniffað ammóníak fyrir leiki í mótinu.
Leikmennirnir tóku inn efnið til að hjálpa við öndun í leikjum en það er ekki bannað samkvæmt reglum FIFA.
Ammóníak hjálpar blóðflæði súrefnis í líkamanum og eiga neytendur auðveldara með að anda undir erfiðum kringumstæðum.
Þýska blaðið Bild greindi upphaflega frá því að efnið hafi verið notað en Rússar hafa nú staðfest þær fegnir og fela sig ekki á bak við þá staðreynd.
Eduard Bezuglov, læknir rússneska liðsins, segir við Bild að ekki sé óalgengt að íþróttamenn noti ammóníak. „Þetta er bara ósköp venjulegt ammóníak sem við dýfum bómull ofan í. Þessu er svo andað að sér. Þúsundir íþróttamanna nota þetta og þetta hefur tíðkast í marga áratugi,“ sagði hann og bætti við að þetta væri ekki aðeins bundið við íþróttamenn.
„Fólk notar þetta líka í daglegu lífi, til dæmis ef einhver missir meðvitund eða er slappur. Þá hressir þetta mann við vegna þess að lyktin er svo sterk. Það er hægt að fá þetta í öllum apótekum, þetta flokkast ekki undir lyfjamisnotkun.“