Markvörðurinn Fernando Muslera gerði sig sekan um slæm mistök í 2-0 tapi Úrúgvæ gegn Frökkum á dögunum er liðin áttust við í 8-liða úrslitum HM.
Antoine Griezmann skoraði annað mark Frakka í leiknum en hann átti þá skot beint á Muslera sem missti boltann í netið.
Nú er komið í ljós að Muslera fékk hræðilegar fréttir fyrir leikinn en nokkrum dögum áður hafði hann misst tvo fjölskyldumeðlimi.
Frændi Muslera lést í bílslysi viku áður en leikurinn fór fram og tveimur dögum fyrir leik þá kvaddi Amma hans heiminn eftir veikindi.
Didier Drogba, fyrrum samherji Muslera hjá Galatasaray, sendi vini sínum skilaboð á Instagram í dag.
Drogba vonar að Muslera nái sér eftir hræðilega tíma og segir hann vera einn sá besta sem hann hefur spilað með.
,,Við erum öll manneskjur eftir allt saman. Vertu sterkur Nando Muslera. Einn sá besti sem ég hef spilað með. Samúðarkveðjur til fjölskyldunnar,“ skrifaði Drogba.