Ísland 1-2 Króatía
0-1 Milan Badelj(53′)
1-1 Gylfi Þór Sigurðsson(víti, 76′)
1-2 Ivan Perisic(90′)
Íslenska landsliðið spilaði í kvöld sinn síðasta leik á HM í Rússlandi en Króatar voru andstæðingar okkar manna.
Ísland gat komist áfram með sigri á Króatíu í kvöld en þurfti einnig að treysta á úrslit í leik Nígeríu og Argentínu.
Strákarnir okkar spiluðu á köflum virkilega vel í leik kvöldsins og vorum við oft nálægt því að skora.
Fyrsta mark leiksins skoruðu Króatar er Milan Badelj kom boltanum í netið snemma í síðari hálfleik.
Ísland jafnaði svo metin á 76. mínútu leiksins er Gylfi Þór Sigurðsson skoraði fyrir okkar menn úr vítaspyrnu.
Ísland þurfti að skora annað mark og setti mikið púður í sóknina en næsta mark kom því miður frá Króötum.
Ivan Perisic skoraði fyrir Króata undir lok leiks og tryggði liðinu 2-1 sigur gegn okkar mönnum.
Argentína fer áfram ásamt Króötum eftir 2-1 sigur á Nígeríu í kvöld.