„Að sitja yfir barninu sínu og vona það besta er einn mesti sársauki sem ég hef upplifað. Ekkert foreldri á að þurfa að þola það,“ segir Hulda Ósk Jónsdóttir móðir rúmlega tvítugrar stúlku í samtali við DV.is. Dóttir hennar var afar hætt komin síðastliðinn þriðjudag eftir ofneyslu á róandi ávandabindandi lyfjum. Hulda vonast til að opna á umræðuna um misnotkun ungmenna á lyfseðlisskyldum lyfjum en hún segir foreldra barna í þessum aðstæðum upplifa mikla skömm.
„Það að enda á svona stað fékk mig til að hugsa um að ég er ekki eina foreldrið sem upplifir þetta en yfirleitt fylgir þessu skömm. Skömm yfir að svona sé komið fyrir barninu manns. En ef það er ekki talað um þau sem ná að lifa þetta af þá erum við ekki meðvituð um hversu mikill vandinn er,“segir Hulda Ósk í samtali við blaðamann en hún tjáði sig um atvikið í færslu á facebook síðastliðinn laugardag. Viðbrögðin hafa verið mikil.
„Ég fengið bæði símtöl og skilaboð frá öðrum foreldrum hvað ég sé hugrökk að ræða þetta svona opið og foreldrar unglinga sem eru meira meðvituð um að svona geti gerst fyrir þeirra börn eins og mitt barn.“
Hulda Ósk bendir einnig á þá staðreynd að lyf á borð við Xanax mælast ekki í þvagi og er því ekki hægt að að notast við eiturlyfjapróf til að koma upp um notkun þeirra.
„Þannig að vandinn er mikill. Dóttir mín verður tvítug í október og má því ekki kaupa áfengi en eiturlyf og lyfseðilskyld lyf eru út um allt og ekkert mál að nálgast. Það þarf að stoppa. En það eru fáir sem ræða vandann opið. Það þarf að gera,ekki bara þegar að það skelfilega gerist að börnin manns eru látin,“ segir Hulda jafnframt. Aðspurð um líðan dóttur sinnar segir hún hana vera góða.
„Hún er góð miðað við aðstæður. Það var sótt um á Vog fyrir hana í gær svo ég er að vona að núna sé allt á uppleið. Ég held að þetta hafi gert henni grein fyrir því að hún er ekki ódauðleg.“
Hér fyrir neðan má lesa færslu Huldu Óskar í heild sinni:
„Ég upplifði eina stærstu martröð sem foreldrar geta upplifað síðastliðinn þriðjudag. Þá fannst dóttir mín meðvitundarlaus eftir að hafa tekið of stóran skammt af Xanax og Rivotril. Ég var þetta foreldri sem hélt að þetta gæti ekki gerst fyrir mig og mitt barn en þar lifði ég í mikilli blekkingu því afhverju ætti þetta ekki að geta gerst fyrir mitt barn eins og börn annarra. Ég þurfti að fylgjast vel með henni allan daginn og fram á nótt og athuga hvort hún andaði og sýndi viðbrögð þegar ég hristi hana til. Það að óttast um líf barnsins síns er eitthvað sem ég óska engum að upplifa.
Að lenda í því að manni finnst eins og þetta sé manni sjálfum að kenna og maður hafi klúðrað uppeldinu einhvers staðar eru hugsanir sem dælast um huga manns á eftir. Sjálfsásakanir, reiði, vonbrigði, sorg, hræðsla og kvíði eru tilfinningar sem ég sit með uppi enn. Ég er ekki að sækjast eftir vorkun með þessum skrifum mínum heldur vekja fólk til umhugsunar. Að minnsta kosti 19 einstaklingar eru látnir það sem af er ári vegna of stórra skammta og þar af þekki ég sjálf til þriggja þeirra. Þessi lyf eru miklu algengari en við gerum okkur grein fyrir og keypt á svörtum markaði. Ég varð að kynna mér sjálf þessi lyf til að átta mig á stöðinni því þetta eru ekki lyf sem ég þekki sjálf. Ég óska þess að núna sé botninum náð og elsku dóttir mín leiti sér aðstoðar. Ég vil biðja fólk um að knúsa börnin sín og vera þakklát fyrir að upplifa ekki þennan hrylling. Ef þetta gat kom fyrir mitt barn þá gæti þetta komið fyrir þitt barn.
Ég vil biðja fólk einnig um að sýna mér nærgætni og skilning því það er ekki auðvelt að tjá sig um svona á Facebook en ég ákvað að gera það til að fólk átti sig á hversu algengt og alvarlegt þessi mál eru. Veit líka að einhverjir fara að dæma mig fyrir að setja þetta inn því sumum finnst að við eigum ekki að ræða svona mál opinberlega en það er í lagi því ég sé þessa dagana hvort eð er um að dæma sjálfa mig. Minni bara á að aðgát skal höfð í nærveru sálar og ef þessi skrif hjálpa einu foreldri sem kannski þarf að upplifa þetta einhvern tíma á lífsleiðinni þá hafa þessi skrif verið þess virði. Nú er bara einn dagur í einu til að púsla sér saman aftur og vona það besta.“