

„Þetta fiðrildi heillaði okkur á æfingu í morgun, ætti að vera okkur til heilla fyrir leikinn gegn Króatíu,“ segir Þorgrímur Þráinsson sem er í starfsliði KSÍ á heimsmeistaramótinu í Rússlandi. Íslenska liðið æfði á Rostov Arena í morgun í undirbúningi sínum fyrir stórleikinn gegn Króatíu annað kvöld.
Ljóst er að íslenska liðið þarf á heppni að halda enda dugar okkur ekkert annað en sigur til að eiga möguleika á sæti í 16-liða úrslitum keppninnar. Þá þarf íslenska liðið að treysta á hagstæð úrslit í leik Argentínu og Nígeríu – helst 1-0 sigur Argentínu svo lengi sem við vinnum okkar leik.
Á æfingu landsliðsins í morgun heilluðust viðstaddir af þessu fallega fiðrildi sem má sjá í myndbandinu hér að neðan. Það kom sér þægilega fyrir á höfði myndatökumanns FIFA sem var að mynda æfingu íslenska liðsins. Sumir líta á fiðrildi sem gæfumerki, jafnvel sem tákn upprisunnar eða vonar og að það boði gott eitt að sjá litríkt fiðrildi að sumri til.
Það er vonandi að fiðrildið fallega á æfingu landsliðsins í dag sé boðberi gæfu eins og Þorgrímur Þráinsson trúir.
https://www.facebook.com/650473749/videos/10156561786073750/