Guardian birtir ítarlega grein um Lionel Messi í dag og er þar talað um hversu mikið til baka hann er.
Messi er fyrirliði Argentínu, liðsins sem mætir Íslandi í fyrstu umferð á HM á morgun.
Messi er einn besti knattspyrnumaður sem heimurinn hefur átt en öll athyglin sem fylgir því er honum ekki vel að skapi.
Sagt er í grein Guardian að Messi sendi þjálfurum sínum frekar skilaboð en að tala við þá um taktík og aðra hluti, sama þó hann sé í sæti rétt hjá þeim.
Juan Sebastian Veron var herbergisfélagi Messi og segir að hann hafi alltaf sofið vel, nema nóttina fyrir hans fyrsta fund sem fyrirliði. Messi líður ekki vel þegar hann þarf að tala fyrir framan stóran hóp.
,,Síminn er vinur Messi,“ segir í grein Guardian en sagt er að hann líti ekki upp úr honum þegar lið Argentínu situr og borðar saman. Hann vill ekki eiga í miklum samskiptum.
Þetta er sagt hafa áhrif á spilamennsku Messi með Argentínu en hann hefur aldrei unnið stóran titil með Argentínu, eitthvað sem allir höfðu von átt á að hann myndi gera.
Sagt er að Messi líði miklu betur þegar hann er í Barcelona, hann vill hafa lífið í fast mótuðum skorðum og líður best í sínu umhverfi. Það er sagt hafa áhrif á spilamennsku hans.