Heimir Hallgrímsson fékk íslenska fjölmiðla til að springa úr hlátri í upphafi fréttamannafundar í Moskvu í dag.
Ástæðan er sú að erlendir fjölmiðlar spyrja alltaf út í það hvernig Heimir er bæði tannlæknir og þjálfari.
Þetta finnst erlendum fjölmiðlum alltaf jafn áhugavert en sama spurningin hefur komið til Heimis í mörg ár.
Heimir Hallgrímsson byrjaði fundinn með stæl og skaut létt á heimspressuna. „Mig langar til að spara ykkur spurningarnar, það eru allir leikmenn heilir, allir vilja spila þennan stærsta leik í sögu íslenskrar knattspyrnu. Það er hausverkur fyrir okkur þjálfarateymið. Ég er tannlæknir og hætti aldrei að vera tannlæknir og vinn stundum á tannlæknastofu,“ sagði Heimir.
Íslenska liðið er nú að klára undirbúning sinn fyrir leikinn gegn Argentínu sem fram fer í Moskvu í dag.