„Ég var svolítið stífur í gær. Maður tekur enga sénsa núna, það er alveg tilgangslaust. Það er ennþá smá stífleiki í mér en ég ætla að reyna að klára æfinguna í dag,“ sagði varnarjaxlinn Ragnar Sigurðsson fyrir æfingu íslenska landsliðsins í Gelendzhik í morgun.
Ragnar æfði ekki af fullum krafti á opnu æfingunni í gær. Hann sagði að staðan á sér væri fín í dag sem eru góðar fréttir fyrir íslenska liðið.
Aðspurður hvernig undirbúningnum fyrir Argentínuleikinn væri háttað, hvort liðið væri byrjað að skoða leik argentínska liðsins sagði Ragnar: „Við erum búnir að kíkja aðeins á þá. Ekkert rosalega mikið en núna eru fjórir til fimm dagar í leik þannig að það byrjar meira núna,“ sagði hann.
Íslenska liðið fékk á sig fimm mörk í tveimur síðustu undirbúningsleikjunum fyrir HM; þrjú gegn Noregi og tvö gegn Ghana. Aðspurður sagði Ragnar að ýmislegt þurfi að laga fyrir fyrsta leik á laugardag.
„Ef þú miðar við æfingaleikina þá er ýmislegt sem við þurfum að laga varnarlega séð. Við erum að fá á okkur allt of mikið af mörkum. Þetta er bara spurning um einbeitingu og skipulag,“ sagði Ragnar og benti réttilega á að ef við værum að horfa á keppnisleikina þá væri lítið sem þyrfti að laga. Nefndi hann í því samhengi einbeitinguna og skipulagið í varnarleiknum sem virðist vera í himnlagi þegar mest er undir.
Viðtalið má sjá hér að neðan en athygli er vakin á því að hljóðgæðin eru á köflum léleg þar sem talsverður vindur var á æfingasvæðinu í morgun.