Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, og fyrrum bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, verður áfram bæjarstjóri sveitarfélagsins, sama hver nýr meirihluti verður. Þetta segir Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingar við mbl.is í dag.
Kjartan var ráðinn bæjarstjóri af fráförnum meirihluta, en Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og óháðir ásamt Beinni leið funda nú um myndun mögulegs meirihluta og segir Friðjón það ganga vel. Hann býst við að viðræðurnar verði kláraðar eftir helgi, unnið sé í málefnavinnu.
Fyrri meirihlutinn samanstóð af Samfylkingu, Beinni leið og Frjálsu afli, sem fengu aðeins fimm fulltrúa kjörna í nýafstöðnum kosningum, en ellefu skipa bæjarstjórn.
Framsóknarflokkurinn bætti við sig manni, auk þess sem Miðflokkurinn náði manni inn. Samfylking bætti einnig við sig manni, meðan bæði Sjálfstæðisflokkur og Frjálst afl töpuðu einum manni.