Deildarstjóri tónlistardeildar LHÍ gagnrýnir meistararitgerð aðstoðarskólastjóra Tónlistarskólans í Reykjavík harðlega
Tryggvi M. Baldvinsson, deildarforseti tónlistardeildar Listaháskóla Íslands, gerir alvarlegar athugasemdir við MA-ritgerð Freyju Gunnlaugsdóttur, klarínettuleikara og aðstoðarskólastjóra Tónlistarskólans í Reykjavík, frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, í færslu á vef LHÍ í dag.
Tryggvi segir ritgerðina vera „gallaða“ og ýmsum hlutum hennar virðist ætlað að „upphefja Tónlistarskólann í Reykjavík á kostnað LHÍ og annarra skóla.“ Tryggvi telur enn fremur að aðgerðaráætlun, sem birt er í lok ritgerðarinnar, hafi legið til grundvallar hugmyndum mennta- og menningarmálaráðherra um framtíð framhaldsnáms í tónlist.
Í athugasemd á vefsíðu LHÍ sem var birt í dag segir Tryggvi margar fullyrðingar í meistararitgerð Freyju Gunnlaugsdóttur við viðskiptafræðideild HÍ, „Framhaldsmenntun í tónlist á Íslandi: Þróun, framtíð og stefna“ sem var skilað í júní 2015, vera órökstuddar. Hann segir að í sumum tilfellum virðist umfjöllunin „nær einvörðungu byggð á huglægu mati Freyju sjálfrar, skorti á upplýsingum og jafnvel fordómum.“
Þá segir hann lýsingar Freyju á tónlistarnámi í LHÍ vera ónákvæmar, engar tilraunir virðist hafa verið gerðar til að afla nákvæmra upplýsinga um starfsemi deildarinnar, orðfærið sé oft á tíðum gildishlaðið og virðist vera til þess ætlað að upphefja Tónlistarskólann í Reykjavík á kostnað LHÍ og annarra tónlistarskóla.
Í lok ritgerðarinnar birtist áætlun um þær aðgerðir sem Freyja telur æskilegt að Tónlistarskólinn ráðist í. Inniheldur hún meðal annars hugmyndir um stofnun eins framhaldsskóla í tónlist, samruna TR og tónlistarskóla FÍH, fullmótaða tónlistarbraut í samstarfi við MH og fleira sem Tryggvi segir ríma fullkomlega við þær hugmyndir sem mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt fram að undanförnu um framtíð framhaldsnáms á Íslandi.
„Það er næstum því farið nákvæmlega eftir þessari aðgerðaáætlun Freyju, meira að segja í réttri röð. Þessar hugmyndir ráðherra virðast eiga ótrúlega margt sameiginlegt með hugmyndafræði Tónlistarskólans í Reykjavík. Mér finnst þetta liggja nokkuð ljóst fyrir, en auðvitað getur þetta bara verið algjör tilviljun,“ segir Tryggvi í samtali við DV.
Hann segir að ráðherra hafi ekki á sama hátt ráðfært sig við tónlistardeild LHÍ um þessar viðamiklu breytingar á tónlistarmenntun á Íslandi. „Við höfum ekkert fengið að segja, það hefur aldrei verið hringt, sendur tölvupóstur eða við beðin um álit. Þetta er algjört sóló ráðherrans með fulltingi Tónlistarskólans í Reykjavík og FÍH,“ segir Tryggvi.
Aðeins tveir aðilar sóttust eftir því að reka Listaframhaldsskólann á sviði tónlistar, sem á að taka til starfa síðar á árinu, annars vegar sameinaður TR og FÍH og hinsvegar Tónskóli Sigursveins D. Kristinssonar og Tónlistarskóli Kópavogs í sameiningu. Umsóknarferlið var aðeins rétt rúmlega mánuður og hentuðu kröfurnar um reynslu væntanlegs rekstraraðila þessum aðilum vel.