fbpx
Miðvikudagur 09.júlí 2025
Fréttir

Þau greiddu mest í skatt

Skattakóngar ársins 2015 – Stjórnendur í Straumi græða á himinháum bónusgreiðslum – Líftækni, ferðaþjónusta og bankastarfsemi

Kristján Guðjónsson
Sunnudaginn 3. júlí 2016 17:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda á einstaklinga vegna tekna á árinu 2015. Talsverðar breytingar verða á listanum á milli ára og kemur maður í manns stað – en aðeins þrjár konur komast á listann yfir þá tuttugu sem greiða hæsta skatta.

Skattakóngurinn er Árni Harðarson, stjórnarmaður og aðstoðarforstjóri Alvogen, sem greiddi meira en 265 milljónir í skatta í fyrra. Fjórir núverandi eða fyrrverandi starfsmenn Straums-Burðaráss eru á topp 10 listanum, en fyrirtækið greiddi nokkrum lykilstarfsmönnum himinháar bónusgreiðslur í lok síðasta árs. Fólk úr lyfja- og líftæknibransanum er áberandi á listanum, auk nokkurra einstaklinga úr ferðabransanum.

Skattakóngur síðasta árs, Þórður Rafn Sigurðsson útgerðarmaður, sem greiddi 671,5 milljónir í fyrra, er ekki á meðal þeirra tuttugu sem greiða mest í opinber gjöld í ár.

1. Árni Harðarson

265.319.825 kr.

Árni Harðarson, stjórnarmaður og aðstoðarforstjóri samheitalyfjafyrirtækisins Alvogen, er skattakóngur Íslands árið 2015. Árni greiddi rúmlega 265 milljónir í opinber gjöld samkvæmt álagningaskrá ríkisskattstjóra, meira en helmingi meira en í fyrra þegar hann sat í níunda sæti listans. Árni lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1993. Hann var ráðinn yfirmaður skatta- og lögfræðideildar Deloitte árið 1999 og varð meðeigandi í félaginu tveimur árum síðar. Um nokkurra ára skeið starfaði Árni hjá Actavis og vann þar náið með Robert Wessman að uppbyggingu fyrirtækisins. Þeir hafa verið nánir viðskiptafélagar og starfrækja meðal annars fjárfestingafyrirækið Salt Investments. Árni hefur starfað hjá Alvogen frá árinu 2009.

2. Christopher M Perrin

200.033.697 kr.

Christopher Perrin er stjórnarformaður eignaumsýslufélagsins ALMC, sem hét áður Straumur-Burðarás fjárfestingabanki. Undir lok síðasta árs greiddi fyrirtækið himinháar bónusgreiðslur til nokkurra núverandi og fyrrverandi starfsmanna. Stærstur hluti af bónusgreiðslunum, sem námu um 3,3 milljörðum íslenskra króna, fóru til nokkurra lykilstjórnenda ALMC. Þetta eru langhæstu bónusgreiðslur sem greiddar hafa verið af íslensku félagi allt frá falli fjármálakerfisins haustið 2008. Perrin, sem er búsettur í Austurríki, fékk því veglegan jólabónus í fyrra.

3. Jakob Már Ásmundsson

193.218.736 kr.

Jakob Már Ásmundsson er fyrrverandi forstjóri Straums. Hann varð forstjóri árið 2013 eftir að hafa starfað átta ár hjá bankanum, meðal annars sem fjármálastjóri. Jakob, sem er doktor í iðnaðarverkfræði, er einn þeirra Straumsmanna sem fengu svimandi háar bónusgreiðslur í lok árs 2015.

4. – 5. Þórir Garðarsson

163.175.914 kr.

og

Sigurdór Sigurðsson

160.403.826 kr.

Flateyringarnir Þórir Garðarsson og Sigurdór Sigurðsson stofnuðu rútu- og ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line á Íslandi fyrir 25 árum og byggðu upp stórveldi í ferðaþjónustubransanum. Í dag rekur Gray Line 65 hópferðabíla og rúmlega 200 manns starfa hjá fyrirtækinu. Samfara túristasprengingunni hefur veskið tútnað út og í fyrra seldu þeir félagar tæplega helmingshlut í Iceland Excursions Allrahanda ehf., sérleyfishafa Gray Line á Íslandi, til fjárfestingasjóðsins Akur, sem er í eigu þrettán lífeyrissjóða. Kaupverðið var trúnaðarmál. Þeir eiga þó ennþá meirihluta í félaginu og starfa þar enn.

6. Óttar Pálsson

142.730.845 kr.
Óttar Pálsson er eigandi og hæstaréttarlögmaður hjá lögfræðistofunni LOGOS. Hann var forstjóri ALMC, áður Straumur-Burðarás fjárfestingabanki, frá 2009 til 2010, en situr nú í stjórn félagsins. Hann hefur setið í stjórnum nokkurs fjölda fyrirtækja á undanförnum árum, þar á meðal innlendra og erlendra fyrirtækja innan Straums-samstæðunnar. Hann er einn þeirra lykilstarfsmanna Straums sem hlutu veglegar bónusgreiðslur í desember í fyrra.

Mynd: Ulrich Schepp wmp

7. Valur Ragnarsson

133.059.910 kr.
Valur Ragnarsson stýrir sameiginlegri starfsemi Actavis á Íslandi, auk þess að vera forstjóri dótturfyrirtækisins Medis, sem selur lyf og lyfjahugvit fyrir samstæðuna til annarra lyfjafyrirtækja. Hann hefur stýrt Medis frá 2008 og var í fyrra tilnefndur leiðtogi ársins á verðlaunahátíð fyrirtækja í samheita- og líftæknilyfjaiðnaði.

Mynd: Sólfar

8. Sigurður Reynir Harðarson

131.512.950 kr.
Reynir er einn af stofnendum CCP, sem fór í stóra hlutafjáraukningu undir lok síðasta árs. Reynir, sem var einn helsti hugmyndasmiðurinn á bak við EVE Online, hætti hjá CCP árið 2014 og stofnaði í kjölfarið fyrirtækið Sólfar ásamt öðrum fyrrum stjórnendum CCP. Fyrirtækið stefnir á að framleiða tölvuleiki og upplifanir fyrir sýndarveruleika.

Mynd: Bjarni Eiríksson

9. Kristján V Vilhelmsson

129.060.207 kr.
Kristján er einn eigenda útgerðarfyrirtækisins Samherja á Akureyri ásamt frænda sínum Þorsteini Má Baldvinssyni. Kristján hefur verið fastagestur á listanum undanfarin ár. Í fyrra greiddi hann 110.473.859 króna í skatta en nú hækka gjöldin um tæpar tuttugu milljónir og skilar það honum í níunda sætið.

10. Andrew Sylvain Bernhardt

112.810.485 kr.
Bretinn Andrew Sylvain Berhardt er stjórnarmaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri ALMC. Þessi fyrrverandi stjórnarformaður West Ham United er einn starfsmaður Straums sem hlaut veglega bónusgreiðslu í fyrra og skýst því upp listann.

11. Jakob Óskar Sigurðsson

101.488.387 kr.

Jakob Óskar Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Promens, vermir 11. sætið en hann greiddi rúmar 100 milljónir í skatta árið 2015. Höfuðstöðvar fyrirtækisins voru fluttar úr landi í byrjun árs og lét þá Jakob af störfum. Jakob er þekktur af handboltaafrekum sínum en hann gat sér gott orð sem handknattleiksmaður hér á árum áður og lék með íslenska landsliðinu á ólympíuleiknum 1988 og 1992. Promens er leiðandi fyrirtæki á heimsvísu í framleiðslu plastafurða og rekur 45 verksmiðjur í 19 löndum með ríflega 4.200 starfsmenn. Fyrirtækið framleiðir meðal annars umbúðir fyrir matvæli, snyrtivörur og lyf, auk íhluta fyrir bifreiðar, landbúnaðarvélar og þungavinnuvélar.

12. Þórlaug Guðmundsdóttir

100.992.418 kr.

Þórlaug Guðmundsdóttir, bóndi á Hópi í Grindavík, greiðir hæstu skatta kvenna og er því skattadrottning þetta árið. Ellefu karlar sem eru fyrir ofan hana greiða hærri skatta. Þórlaug greiðir tæplega 101 milljón í skatta. Hún sló heldur betur í gegn fyrr á árinu þegar hún varð internetstjarna á svipstundu. Hún lék þá aðalhlutverkið í sauðburðar-myndbandi sem vakti mikla athygli

13. Þorvaldur Ingvarsson

93.116.177 kr.

Þorvaldur Ingvarsson, læknir og forstöðumaður rannsóknar og þróunar hjá stoðtækjaframleiðandanum Össuri, er í 13. sæti yfir þá sem greiða hæstu skattana eða rúmar 93 milljónir. Í fyrra seldi hann hlutabréf í fyrirtækinu fyrir rúmar 70 milljónir króna.

14. Egill Jónsson

86.244.009 kr.

Egill Jónsson starfar á framleiðslu- og rekstrarsviði hjá stoðtækjaframleiðandanum Össuri. Egill er fæddur 1957, hefur unnið hjá fyrirtækinu frá árinu 1996 og leiddi skiptingu frá þeim tíma. Egill hefur meistaragráðu í vélaverkfræði frá Tækniháskólanum í Kaupmannahöfn, DTU. Egill og tengdir aðilar hans eiga 822,749 hluti í félaginu.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

15. Kári Stefánsson

84.516.529 kr.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskra erfðagreiningar, greiðir að þessu sinni 84,5 milljónir í skatta. Kári hefur undanfarin ár verið í hópi hæstu skattgreiðenda í landinu en í fyrra var hann í þriðja sætinu. Þá var haft eftir Kára að hann væri ánægður með að geta lagt sitt af mörkum til samfélagsins.

16. Guðbjörg Edda Eggertsdóttir

83.537.457 kr.

Guðbjörg Edda Eggertsdóttir er gert að greiða rúmar 83,5 milljónir króna í skatta. Guðbjörg Edda gegndi um langt árabil forstjórastöðunni hjá Actavis en gerði starfslokasamning við fyrirtækið 2014, en þá tók Valur Ragnarsson (7. sæti) við stöðunni. Hún situr í stjórnum nokkurra fyrirtækja í dag.

17. Þuríður Ottesen

81.246.007 kr.

Þuríður Ottesen er stofnandi og eigandi fyrirtækisins Gengur vel ehf. en fyrirtækið selur heilsuvörur. Þuríður greiðir rúmar 80 milljónir króna í skatt. Fyrirtækið var stofnað fyrir tæpum 12 árum síðan. Þuríður var áður í framkvæmdastjórn fyrirtækisins en starfar í sérverkefnum tengdum vöruþróun og sem stjórnarformaður.

18. Benedikt Sveinsson

80.440.300 kr.

Benedikt Sveinssyni, fjárfesti og stjórnarmanni í mörgum fyrirtækjum, er gert að greiða rúmar 80 milljónir króna í skatt. Hann er faðir Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Benedikt hefur lengi verið umsvifamikill fjárfestir auk þess að vera bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ í þrjú kjörtímabil og stjórnarformaður Eimskipafélags Íslands um tíma.

19. Ingibjörg Lind Karlsdóttir

80.290.404 kr.

Ingibjörg Lind Karlsdóttir, dagskrárgerðarkona, vermir 19. sætið yfir hæstu skattgreiðendur landsins. Í tekjublaði DV kemur fram að hún hafði 263 þúsund krónur á mánuði á síðasta ári. Líklega má telja að sala á hlutabréfum sé ástæðan fyrir svona háum sköttum. Þess má geta að eiginmaður Ingibjargar er Árni Hauksson fjárfestir.

Mynd: srphoto@mac.com srphoto@mac.com

20. Grímur Karl Sæmundsen

80.089.692 kr.

Grímur Karl Sæmundsen, læknir og forstjóri Bláa lónsins, situr í 20. sæti listans en í fyrra var hann í 13. sæti. Grímur hefur byggt upp Bláa lónið en rekstur fyrirtækisins hefur gengið vel alla tíð og er geysivinsælt á meðal erlendra ferðamanna. Grímur er formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Sigurður ber Auðunn saman við Jesú Krist og segir áhrif hans ekki leyna sér – „Árið er 45 E.AB“

Sigurður ber Auðunn saman við Jesú Krist og segir áhrif hans ekki leyna sér – „Árið er 45 E.AB“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Segir Bjarna hafa mokað peningum til einkafyrirtækja með gríðarlegum skattaafslætti

Segir Bjarna hafa mokað peningum til einkafyrirtækja með gríðarlegum skattaafslætti
Fréttir
Í gær

Landsréttur slær á putta héraðsdóms – Mál óprúttins vörubílstjóra sem keyrði á lögreglubifreið fer fyrir dóm

Landsréttur slær á putta héraðsdóms – Mál óprúttins vörubílstjóra sem keyrði á lögreglubifreið fer fyrir dóm
Fréttir
Í gær

Fastus vann stærsta sjúkrabílaútboð á Íslandi

Fastus vann stærsta sjúkrabílaútboð á Íslandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fullyrða að Epstein hafi ekki haldið skrá yfir fræga viðskiptavini og ætla ekki að birta nein gögn

Fullyrða að Epstein hafi ekki haldið skrá yfir fræga viðskiptavini og ætla ekki að birta nein gögn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fjórir sem höfðu samræði við þroskaskerta konu sleppa við ákæru

Fjórir sem höfðu samræði við þroskaskerta konu sleppa við ákæru