Sigríður Benediktsdóttir framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika í Seðlabanka Íslands lætur af störfum 1. október næstkomandi eftir að hafa starfað hjá bankanum í fjögur ár. Ástæðan er að henni hefur boðist starf hjá Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Þetta kemur fram á vef Seðlabankans. Í háskólanum mun Sigríður sinna rannsóknum og kennslu en hún er ekki ókunn þessum virta skóla. Á árunum 2007 til 2012 var hún þar starfsmaður en með hléum á árunum 2009 til 2010. Á umræddum tíma sat hún í rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna árið 2008.
Sigríður tók við starfi framkvæmdastjóra fjármálastöðugleika í Seðlabankanum 1. janúar 2012. Meginviðfangsefni sviðsins eru greining og mat á kerfisáhættu og fjármálastöðugleika ásamt þátttöku í mótun varúðarreglna fyrir fjármálakerfið. Hún hefur einnig setið í kerfisáhætturáði Danmerkur frá ársbyrjun 2013.
Í tilkynningu bankans segir að Sigríður hafi komið til starfa í Seðlabankanum á tíma þegar unnið var að innleiðingu nýs regluverks um fjármálastarfsemi og nýs ramma um vöku yfir áhættu í fjármálakerfinu.
Segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri að Sigríður hafi lagt mjög mikið til þessarar vinnu og þar hafi nýst mikil þekking hennar og reynsla. Starf framkvæmdastjórans verður auglýst til umsóknar innan tíðar.