fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Ellen bjó við skelfilegar aðstæður – „Um hver mánaðamót mætti ég til ónefnds hæstaréttarlögmanns“

Einar Þór Sigurðsson
Miðvikudaginn 2. maí 2018 19:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tónlistarkonan Ellen Kristjánsdóttir segir að græðgin í íslensku samfélagi sé orðin ógeðfelld og að bilið á milli fátækra og ríkra sé orðið allt of stórt. Hún segir að fyrirtæki eins og Gamma hafi fengið að valsa um og skilið eftir sig „sviðna jörð“ í húsnæðismálum landsins.

Þessari skoðun lýsir Ellen í pistli Facebook-síðu sinni.

„Í mörg ár hef ég hugsað um hversu húsnæðisvandamálið hér á landinu er orðið alvarlegt. Ég hef skrifað og tuðað endalaust. Ég hef tekið þátt í að reyna að koma í veg fyrir að fjölskyldum yrði hent út. Sjálf hef ég slæma reynslu eftir hrun. En þegar ég var á leigumarkaðnum með börnin mín lítil þá gekk það upp svona nokkurnvegin og seinna fékk ég verkamannabústað. Sömu sögu hef ég að segja þegar ég var að alast upp hjá einstæðri móður og tveimur bræðrum,“ segir Ellen.

Hún segir að fjölskyldan hafi verið mjög fátæk, móðir hennar unnið átta tíma á dag og svo um helgar.

„Um hver mánaðamót mætti ég til ónefnds hæstaréttalögmanns sem brosti og tók við umslaginu með leigunni og sagði alltaf: „Flott”. Ég stamaði að það læki ennþá á ganginum og ekkert ljós væri þar og einnig á baðherberginu og allir gluggar lekir. Silfurskottur í skúffum og pöddur í hveitinu, fúkkalykt allstaðar. „Lokaðu á eftir þér” var svarið“

Ellen segir að á þessum tíma hafi hún alltaf verið veik og inni og út af barnaspítalanum vegna veikinda sem voru óútskýrð. „Við fengum skrifað hjá kaupmanninum á horninu. Það bjargaði okkur.“

Ellen heldur áfram:

„Bræður mínir fluttu til útlanda og við mamma vorum tvær. Ég fór til útlanda í eitt ár, kom heim og til að gera langa sögu stutta þá fluttum við mamma á þremur árum á á þrjá staði. (Ein „íbúðin” var geymsluhúsnæði). Þegar við vorum öll flutt að heiman tók við mikið basl hjá mömmu. Hún missti mann sinn, var á götunni en fékk inni á Vesturgötu í gamalli verslun. Hún vann hjá Landsbankanum á þessum tíma en svo kom kraftaverkið, hún fékk úthlutað í Verkó, litla íbúð í Breiðholti,“ segir Ellen sem bætir við að þá hafi móðir hennar loksins fengið að búa í friði.

„Hún var 66 ára og bjó þar þar til hún lést 81 árs. Fimmtán yndisleg ár í öruggu skjóli. Minningarnar þaðan eru svo góðar. Hún hafði reyndar sótt um þjónustuíbúð vegna veikinda sínna en var synjað um það aftur og aftur. Bréf kom loks í póstinn um að hún væri nú nógu lasinn til að fá þjónustu íbúð – viku eftir að hún lést.“

Ellen segist telja að ástandið nú sé orðið enn verra en það var. Landsmönnum hafi fjölgað en græðgin sé orðin ótrúlega ógeðfelld.

„Bilið á milli fátækra og ríkra er alltof STÓRT. Ég verð alltaf jafn hissa þegar að fólk segir: (og þar á meðal fólk sem vinnur hjá ríki og borg) „Já, við vissum ekki að ástandið væri svona slæmt”. Þau sömu ættu að kynna sér sögu húsnæðismála á Íslandi og hvernig verkamannabústaðirnir björguðu loksins því hræðilega ástandi sem ríkti í kringum 1930 og síðan var það endurvakið aftur síðar. Fyrirtæki eins og Gamma hafa fengið að rasa út eins og engin væri morgundagurinn og skilið eftir sig sviðna jörð í húsnæðismálum landsins. Mikil er skömm þeirra sem áttu að sjá um húsnæðismál, heilbrigðismál og menntamál landsins.“

Ellen segist viðurkenna að hún hafi verið orðin svartsýn en nú kveðst hún telja að bjartara sé framundan.

„Nýr formaður var kosin í Eflingu, Sólveig Anna Jónsdóttir, og nýlegir formenn , Ragnar Þór Ingólfsson hjá VR og Vilhjálmur Birgisson hjá VLFA og jafnvel fleiri hafa tekið saman höndum. Trúum og treystum þessu nýja góða fólki.
Tökum sjálf þátt í að breyta og bæta,“ segir Ellen sem lætur stuttar upplýsingar um verkamannabústaðina fylgja:

“Lög um verkamannabústaði voru sett 1929 og voru fyrstu íbúðirnar tilbúnar um mitt ár 1932. Verkamenn greiddu 15% af kostnaðarverði og eignuðust síðan íbúðina smátt og smátt á 42 árum með því að greiða húsaleigu sem var lægri en leiga á almennum markaði. Þegar breski herinn fór skildi hann eftir sig fjöldann allan af bröggum og þeir urðu að barnmörgum hverfum þar sem fátækt fólk bjó við slæman kost. Félagsmenn í ASÍ sammæltust um að slá af kaupkröfum sínum og setja þess í stað úrbætur í húsnæðismálum á oddinn. Um miðjan sjöunda áratuginn fékkst samþykkt að byggt yrði upp nýtt hverfi, Breiðholtið og um leið fóru hjallarnir og hreysin að hverfa. “

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigur hjá Harvey Weinstein: Dómi gegn honum í New York snúið við

Sigur hjá Harvey Weinstein: Dómi gegn honum í New York snúið við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“