Aðallega er um að ræða Kúrda sem sögðust tilheyra minnihlutahópi jasíta sem er ofsóttur af hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við Íslamska ríkið. Grunur leikur á að á árunum 2013 til 2016 hafi konan starfað með þremur lögmönnum sem beindu hælisleitendum, einnig frá öðrum ríkjum Þýskalands, til skrifstofu hennar. Í heildina eru sex manns grunaðir í málinu. Der Spiegel segir að fólkið hafi tekið við umtalsverðum greiðslum frá flóttamönnunum fyrir veitta aðstoð.
Der Spiegel segir að konan hafi að minnsta kosti einu sinni sleppt því að gera viðeigandi öryggiskönnun á skjölum hælisleitanda. Síðar kom í ljós að skjölin höfðu verið gefin út á svæði sem var á valdi Íslamska ríkisins. Í öðru tilfelli bað konan starfsmann um að sleppa því að rannsaka skjöl frá hælisleitanda því ekki væri tími til þess. Skjölin reyndust vera fölsuð.
Einnig leikur grunur á að konan hafi falsað undirskriftir samstarfsfólks á ýmis skjöl. Hún var flutt til í starfi 2016 þegar í ljós kom að starfsaðferðir hennar voru ekki eins og þær áttu að vera. Innri rannsókn hófst þá á málinu. Frankfurter Allgemeine Zeitung segir að þeirri rannsókn hafi lokið í júlí 2017. Í október komu fram ný fölsuð skjöl með undirskrift konunnar.
Nú þurfa yfirvöld að fara yfir afgreiðslu 4.500 hælisumsókna og reglur um starfsaðferðir við afgreiðslu slíkra mála verða hertar.
Það hefur lengi legið ljóst fyrir að í Bremen fær hærra hlutfall hælisleitenda hæli en í öðrum ríkjum Þýskalands.