Fyrra höfuðið fannst þann 1. mars nærri Calcasieu Lake í Louisiana. Það var fangi, sem var að vinna við hreinsun á votlendissvæði, sem fann höfuðið. Réttarmeinafræðingar telja að konan hafi verið á aldrinum 25 til 40 ára með rauðleitt eða brúnleitt hár. Ekki er vitað með vissu hversu lengi höfuðið hafði legið þarna en lögreglan segir það geta hafa verið nokkra mánuði.
Síðara höfuðið fannst við Lake Houston í Texas þann 24. mars. Það voru sjálfboðaliðar, sem voru við hreinsunarstörf, sem fundu það. Réttarmeinafræðingar segja að konan hafi verið hvít eða hugsanlega af suður-amerískum uppruna. Hár hennar var litað rautt og augabrúnir hennar voru húðflúraðar. Hún er talin hafa verið á aldrinum frá um 20 ára til miðaldra.
Karlmaður á þrítugsaldri sást henda svörtum ruslapoka fram af brú við Calcasieu Lake tveimur vikum áður en fyrra höfuðið fannst. Lögreglan vill gjarnan hafa uppi á manninum segir í umfjöllun Sky-fréttastofunnar. Lögreglan í ríkjunum tveimur vinnur nú saman að rannsókn málanna enda er margt líkt með þeim.
Lois Gibson, 66 ára teiknari, hefur verið fengin til liðs við lögregluna við rannsókn málanna en hún þykir einn besti teiknarinn sem lögreglan notar til að teikna andlitsmyndir. Hún starfar oft með lögreglunni þegar litlar sem engar vísbendingar eru til staðar. Teikningar hennar hafa orðið til þess að kennsl hafa verið borin á rúmlega 750 manns sem lögregluna vantaði upplýsingar um.
Árið 1972, þegar Gibson var 21 árs, varð hún fyrir árás raðnauðgara og morðingja. Lýsing hennar á árásarmanninum varð til þess að hann var handtekinn. Hún gerir um 120 teikningar á ári fyrir lögregluna í Houston og hefur komið að lausn rúmlega 1.000 sakamála á 30 árum.