Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir skrifar athyglisverða grein sem hún nefnir Hverjir gáfu út skuldaveiðileyfin?
Svo hljómar brot úr henni:
„Þegar litið er yfir veiðislóðina og skoðað hvernig þar er nú umhorfs eftir atgang veiðimannanna og veiðarfæri þeirra, má alls ekki gleyma því hverjir það voru sem gáfu út veiðileyfin? Hverjir gáfu út skuldaveiðileyfi á almenning heima og heiman og hverjir áttu að hafa eftirlit með veiðunum?
Á dögunum mátti sjá í Silfri Egils útlendinga segja sína sögu af íslenskum veiðimönnum. Þetta voru þeir Roger Boyes, blaðamaður Sunday Times og höfundur bókarinnar Meltdown Iceland, og Tony Shearer, fyrrverandi forstjóri Singer & Friedlander, banka Kaupþings í Bretlandi. Að hlusta á þessa menn vakti með mér tregablandinn létti. Ekki það að þessir menn væru að segja mér eitthvað nýtt, ekki það að þeir væru að næra hjá mér réttlætiskennd eða refsiþörf. – Nei, heldur það hversu frjálsir þeir voru um leið og þeir tjáðu hug sinn, og það óttaleysi sem einkenndi frásögn þeirra. Þarna töluðu frjálsir menn, menn sem áttu greinilega ekkert undir íslenskum ráðamönnum. Það er í mínum huga þetta sem stendur upp úr í þessum viðtölum og áhrifin hafa óneitanlega vakið upp hjá mér löngunina til að flytja aftur til London þar sem frelsi og svigrúm umræðunnar er á háu stigi.“