Í kvöld verður sýndur síðasti þáttur Kiljunnar fyrir jól. Þar verður ekki reynt að komast yfir fjögur hundruð bókartitla eins og stjórnandinn lofaði í síðasta þætti, en efni þáttarins er þó býsna mikið.
Systurnar Elísabet og Unnur Jökulsdætur koma í þáttinn að ræða nýjar bækur sínar. Bók Elísabetar nefnist Heilræði lásasmiðsins og þykir óvenju opinská en Unnur skrifar rekur huldufólkssögur í nútímanum í bók sinni Hefurðu séð huldufólk?
Ingibjörg Haraldsdóttir kemur í þáttinn og segir frá endurminningabók sinni Veruleika draumanna. Þar segir hún frá æskuárum sínum, námsárum í Moskvu og lífi á Kúbu en hún giftist kúbverskum manni.
Af öðrum gestum í þættinum má nefna þýska rithöfundinn Alexöndru Kui, Halldóru Kristínu Thoroddsen og Bjarna Bjarnason.
Gagnrýnendur af nokkrum fjölmiðlum segja okkur hvað hæst ber í bókaflóðinu.
Kolbrún og Páll fjalla meðal annars um bækur eftir Einar Kárason, Þórarin Eldjárn og Hrafn Jökulsson.
En Bragi er í jólaskapi og segir frá hinni einu sönnu jólabók.
Þátturinn fer svo í jólafrí en við tökum aftur upp þráðinn 16. janúar.