Stundum hefur manni fundist að Sigrún Davíðsdóttir hafi rödd hrópanda í fjölmiðlaflórunni íslensku. Hún hefur grafið upp alls kyns upplýsingar, en það er eins og þær hafi ekki náð að rata inn í umræðuna hér heima. Það er stundum líkt og hún sé eini íslenski fjölmiðlamaðurinn sem kann að afla upplýsinga í útlöndum.
Hún hefur til dæmis margsinnis fjallað um aðgerðir breska seðlabankans gegn íslensku bönkunum í byrjun október í fyrra – áður en hinum svokölluðu hryðjuverkalögum var beitt.
Það var 3. október að beski seðlabankinnleggur þá kvöð á Landsbankann og Kaupþing í Bretlandi að innlagnir í bankana færu ekki þangað inn heldur á sérstakan reikning í seðlabankanum breska. Tilskipunin var afturvirk um einn dag, átti að taka gildi 2. október.
Eitt sem hefur vakið furðu í þessu er að Seðlabankinn á Íslandi skuli hafa lánað Kaupþingi fé eftir að Bretar gripu til þessara aðgerða. Má spyrja hvort Seðlabankanum hafi verið ókunnugt um þessa atburðarás?
Sigrún skrifaði 26. júní síðastliðinn:
„En já, bresku aðgerðirnar komu ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti – þær voru saga í nokkrum köflum. Aðgerðir breska fjármálaeftirlitið hófust ekki 8. október, heldur 3. október. Þær aðgerðir voru leynilegar – innstæðueigendur hefðu auðvitað gert áhlaup á bankana ef þetta hefði frést en skilanefndir bankanna hér opinberuðu þetta í apríl. Það væri þó afar undarlegt ef stjórnendur bankanna hefðu ekki upplýst Seðlabankann um þessar aðgerðir. Og einkum undarlegt ef Kaupþing hefur ekki gert það þegar samið var um 80 milljarða króna lánið.
Það dugir ekki að halda því fram að þessi aðgerð FSA gegn bönkunum tveimur hafi bara verið einhvers konar aðvörun. Þetta var engin aðvörun – það var blóðug alvara. Aðgerðirnar voru rökstuddar með því að viðkomandi bankar uppfylltu ekki lengur skilyrði fyrir starfsleyfi og verið væri að vernda fjármálastöðugleika landsins og innistæðueigendur. Út úr þessari klemmu gátu bankarnir ekki smeygt sér nema að komast í pening – og hvar áttu þeir að gera það eins og ástandið var?“
Morgunblaðið er með frétt í anda þessara upplýsinga Sigrúnar í dag. Þar segir að í raun hafi eignir Landsbankans í Bretlandi verið kyrrsettar fimm dögum áður en hryðjuverkalögunum svonefndu var beitt gegn bankanum.