Fyrsta alvöru bókin sem ég las á ensku var Slaughterhouse 5 eftir Kurt Vonnegut. Svo kom Catch 22 eftir Joseph Heller, það var dálítið stórt stökk.
Eftir það ofmetnaðist ég og náði mér í eintak af The Magic Mountain – eins og það hét í ensku útgáfunni – Pengunkilju sem innihélt Töfrafjallið eftir Thomas Mann.
Ég var að þvælast með hana í vasanum nokkra hríð, man að einn kennari í menntaskólanum gerði grín að mér fyrir þetta.
Ég kunni ekki að meta það.
En mér tókst ekki að klára Töfrafjallið í það skiptið, og geri þá játningu núna að ég hef aldrei lesið bókina alla. Veit þó að þetta er heimspekilegt meistarverk sem gerist á heilsuhæli í Davos í Sviss, fjallar um ungan mann, Hans Castorp, sem fer upp í fjöllin til að heimsækja berklaveikan frænda sinn – ég man ekki fleiri persónur, nema Ítala sem kallast Settembrini.
Halldór Laxness var ansi góður í að slá fram sleggjudómum sem urðu viðtekin sannindi hjá aðdáendum hans, ég man ekki betur en að hann hafi sagt um Töfrafjallið að það séu þúsund blaðsíður af vindlareykingum eða eitthvað á þá leið.
Ég rifja þetta upp vegna þess á mér barst í gær í hendur Völsungablóð, safn af styttri sögum eftir Thomas Mann, gefið út af Hávallaútgáfunni, inniheldur meðal annars þá frægu sögu Dauðann í Feneyjum. Og svo Herra Friedemann litla (Der kleine Herr Friedemann) en hún mun hafa verið lesin í þýskunámi í Menntaskólanum í Reykjavík í eina tíð.
Móðir mín hefur sagt mér að eftir að hafa lesið um hræðileg örlög krypplingsins og dvergsins Friedemanns hafi hún orðið afhuga þýskum bókmenntum – og víst er að í þeirri sögu er mjög þýskur pathos, ekki ósvipaður því sem má finna í Unrat prófessor, frægri sögu um falleraðan menntaskólakennara eftir Heinrich Mann, bróður Thomasar.
Þetta er líklega þægilegri inngangur að verkum þessa mikla meistara en Töfrafjallið. Og þótt sumt í Thomasi Mann virki úrelt – til dæmis hinn sífellda barátta milli listamannseðlisins og borgaralegra viðhorfa sem hann fjallar gjarnan um – og hann sé stundum fjarska langorður, þá er hann enn af öndvegishöfundum heimsbókmenntanna.
Fyrir utan hvað er gaman að lesa um hann og fjölskyldu hans: Mann var sjálfur þýskur góðborgari, patríarki, sem flúð til Kaliforníu í stríðinu, Heinrich var dálítill saurlífisseggur en líka sósíalisti sem átti að fá heiðurssess í Þýska alþýðulýðveldinu en dó áður en til þess kom, og þrjú barnanna urðu fræg: Erika, sem gekk í sýndarhjónaband með W.H. Auden en hafði áður verið gift leikaranum Gustaf Gründgens, Klaus sem samdi lykilskáldsöguna Mefistó um áðurnefndan Gruündgens en fyrirfór sér 1949, og Golo sem var einn þekktasti sagnfræðingur Þýskalands og skrifaði fræga bók um Wallenstein.