Hér greinir frá því að N1 fái versta útreið olíufélaganna á okursíðu Dr. Gunna.
Lesandi sendi þetta bréf um hvernig byrðum er velt á almenning í landinu.
— — —
Blessaður Egill,
Ég vildi benda á þessa grein um uppgjör N1. http://www.vb.is/frett/1/57688/
Ég reikna með því að stjórnendur N1 líti á þetta sem jákvæðar fréttir og merki um rekstrarlega snilli.
Fyrir aðilar sem er ekki meðvirkur þá kemur hins vegar fram tvennt, það er samdráttur í gangi út af minnkandi umsvifum í samfélaginu en félagið er að skila aukinni framlegð sem þýðir bara eitt. Þeir eru að auka álagningu. Ef þú ræðir við stjórnendur þá munu þeir eflaust halda því fram að með miklu aðhaldi og hagræðingu séu þeir að ná að stjórna kostnaði betur og því sé framlegð að auka. Ég á þó erfitt með að trúa því þ.s. kostnaður „vöruframleiðslu“ er eitthvað sem þeir hafa litla stjórn á enda selja þeir olíu og vörur frá þriðja aðila. Svigrúm þeirra til að stjórna kostnaði kemur fram í öðrum liðum en kostnaðarverði seldra vara.
Þetta er svo sem ekkert skrítið. Því miður er sannleikurinn sá að á endanum kemur að skuldadögum. Skuldafyllerí misvitra stjórnenda íslenskra fyrirtækja er komið á gjalddaga. Vandamálið er að almenningur borgar fyrir þetta fyllerí. Það má segja að þetta sé gert á þrjá vegu
1. Hækkaðir skattar og niðurskurður hjá ríkinu fer í að borga skuldafyllerí bankageirans.
2. Aukin álagning einkafyrirtæka greiðir niður skuldir einkafyrirtækjanna.
3. Stighækkandi álögur og skattar ríkisins ásamt aukinni álagningu einkafyrirtækja eykur á verðbólgu sem hækkar verðtryggðar skuldir landans og brennir sparifé þeirra einstaklinga sem eru í þeirri sorglegu stöðu að eiga íslenskar krónur inni á banka.
Það var áhugavert að sjá tilvísunina sem þú sendir inn um daginn frá Sólon, sannari orð er varla verið hægt að finna. Það er nefnilega bara ein staðreynd í öllu þessu rugli hér. Á endanum eru það ekki fyrirtækin sjálf sem greiða skuldirnar heldur er það almenningur sem greiðir þessar skuldir í formi hærri álagningar. Það er nefnilega þannig að peningar vaxa ekki á trjánum þó að stjórnmálamenn virðist halda það. Það er algjört klúður að fyrirtækin hafi verið færð yfir í nýju bankana. Markaðurinn þurfti að fara í gegnum algjöra endurnýjun með tilheyrandi gjaldþrotum fyrirtækja og endurnýjun (ekki skuldaaðlögun). Það er nóg fyrir almenning að borga sínar einkaskuldir sem stofnað var til í formi húsnæðis- og neyslulána. Það er ekki á það bætandi að almenningur borgi líka skuldir einkageirans.