Hvarvetna heyrir maður í fólki sem er svo illa skuldsett að það ræður ekki við að borga af lánunum sínum. Eða rétt nær því. Eign þess í eigin húsnæði hefur brunnið upp, er farin fyrir fullt og allt. Það borgar og borgar, en lánin hækka – það er fjarlægur draumur að sjá höfuðstól lánanna lækka. Það er hrikalega vond tilfinning að borga jafnvel mörg hundruð afborganir og sjá upphæðina bara hækka.
Sumt af þessu fólki tók gjaldeyrislán, aðrir tóku venjuleg íslensk verðtryggð lán.
Fyrir þetta fólk er greiðsluaðlögunin sem bankarnir bjóða upp á allsendis ófullnægjandi. Það er ekki að ástæðulausu að talað er um forsendubrest.
Maður skilur vel kröfur útifundarins sem var haldinn á Austurvelli í dag. Hann var samt furðu fámennur, fjölmiðlarnir segja að einungis um tvö hundruð manns hafi mætt:
En kröfurnar eru svohljóðandi:
1. Engar afskriftir – eingöngu réttlátar leiðréttingar
2. Lán sem hvíla á íbúðarhúsnæði með viðmiðun við gengi erlendra gjaldmiðla verði leiðrétt og yfirfærð í íslenskar krónur frá lántökudegi á gengi þess tíma.
3. Verðtryggð húsnæðislán leiðréttist þannig að verðbætur verði að hámarki 4% á ári frá 1.1.’08.
4. Lög um að ekki verði gengið lengra í innheimtu veðlána en að leysa til sín veðsetta eign.
5. Lög um að við uppgjör skuldar fyrnist eftirstöðvar innan 5 ára og verði ekki endurvakin.
6. Gerð verði tímasett áætlun um AFNÁM VERÐTRYGGINGAR lána hið fyrsta og vaxtaokur verði aflagt.