Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, skrifaði athyglisverða grein í Fréttablaðið í vikunni.
Í greininni skirrist Jón ekki við að kalla þá ríkisstjórn sem nú situr „fyrstu sósíalistastjórn Íslands“.
Jóni er mikið í mun að byggðar séu brýr á miðjunni. Hann óttast að „sósíalistastjórnin“ muni efla „ofurvald Sjálfstæðisflokksins“ og telur að miðjuöflin í stjórnmálunum þurfi að bregðast við.
Vandinn er hins vegar sá að milli þeirra sem ráða ferðinni í þingflokki Framsóknar og Samfylkingarinnar er mikill fjandskapur þessa dagana. Jón segir að þetta styrki stöðu Sjálfstæðisflokksins og „kommanna“ í Vinstri grænum.
Brúna vill Jón byggja milli miðjuaflanna í Framsókn og Samfylkingunni – til að ná frumkvæðinu í íslenskum stjórnmálum, líkt og hann orðar það.
Það verður þó varla gert nema að flokkarnir nái saman um Evrópumál. Jón sjálfur er evrópusinnaður líkt og Halldór Ásgrímsson og Valgerður Sverrisdóttir, formennirnir sem komu á undan honum og eftir. Núverandi formaður, Sigmundur Davíð, gefur hins vegar lítið fyrir Evrópu – og hann er mjög lítið hrifinn af Samfylkingunni.
Brúarsmíðin á miðjunni gæti orðið ansi erfið.