Áðan þurfti ég að fara á netið til að rifja upp hverjir væru ráðherrar í ríkisstjórn Íslands. Ég mundi það bara ekki. Sérstaklega átti ég erfitt með að muna hverjir eru ráðherrar Samfylkingarinnar.
Samfylkingarmaðurinn Björgvin Valur skrifar pistil og segir að það vanti leiðsögn frá ríkisstjórninni. Hann segir:
„Hvers vegna gengur ekki forsætisráðherra eða viðskiptaráðherra eða fjármálaráðherra fram fyrir skjöldu og segir okkur hvað á sér þarna stað, að sjálfsögðu eftir að hafa arkað inn í bankann og gert stjórnendum þar ljóst að pukur og leynimakk heyri fortíðinni til og eini hagsmunahópurinn sem beri að taka tillit til, sé íslenska þjóðin.
Ekki familien Bónus eða erlendir fjárfestar að baki þeim.
Ef það er svo, að það sé þjóðinni fyrir bestu að fyrrum eigendur Haga fái þá aftur, verður að rökstyðja það nokkuð vel því þeir eiga lítinn ef nokkurn goodwill inni hjá þjóðinni.
Ekki frekar en aðrir hrunverjar.
Nú veit ég að stjórnmálamenn munu einhverjir segja sem svo, að það sé ekki góð stjórnsýsla að þeir segi bönkunum fyrir verkum en ég er ekki viss um að það eigi við á tímum sem þessum.
Það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk hafi stjórn á reiði sinni á meðan stöðugt er borið eldsneyti að reiðibálinu; á meðan leyndarhyggjan ræður ríkjum og þjóðin fær fréttir af gangi máli eftir leka úr kerfinu, kannski réttar en kannski lognar, þá nærist reiðin og örvæntingin vex.
Reiði af þeirri gerðinni sem hefur komið af stað byltingum og blóðugum átökum í öðrum löndum.“