Mikil átök munu vera í Kaupþingi, afsakið Arion, um hvernig eigi að afgreiða mál Baugsfeðga. Um daginn hvarf úr starfi í bankanum Regin Freyr Mogensen, sem bankinn hafði sett í stjórn 1998 ehf., eignarhaldsfélagsins sem var stofnað í skyndi síðastliðið sumar um verslanir Baugsmanna á Íslandi. Sagt er að Reginn hafi verið óánægður með hvernig málin eru höndluð í bankanum.
Annar maður sem settur var í stjórn er Sigurjón Pálsson, mágur Ara Edwald, viðskiptafélaga og besta vinar Jóns Ásgeirs.
Sterki maðurinn í bankanum þegar þessi mál eru annars vegar mun þó vera Jakob Bjarnason, maður sem hefur ætíð gætt þess að láta ekki á sér bera. Jakob kemur úr gamla liðinu í Kaupþingi, var einn nánasti samstarfsmaður Sigurðar Einarssonar og Hreiðars Más.
Finnur Sveinbjörnsson bankastjóri mun svo ekki vita í hvorn fótinn hann á að stíga í málinu. Staða hans er líka afar veik, hann stýrði þeirri dæmalausu bankastofnun Icebank, og á varla von á góðu þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis birtist.
Heimildir herma að ákvörðunar i þessu eldfima máli sé að vænta í næstu viku.