Andri Geir Arinbjarnarson bloggar aftur eftir nokkuð hlé og nú um Orkuveitu Reykjavíkur:
„Efnahagsreikningur OR er slíkur að maður getur vart dregið aðra ályktun en að þar hafi verið stunduð fjármálaleg skemmdarverkastarfsemi af fyrri stjórn. Málið er svo alvarlegt að það þarf að rannsaka opinberlega af óháðum aðilum.
Eitt er að fjármálalegir óvitar stefni sínum einkafyrirtækjum í gjaldþrot og glötun en að leyfa pólitískum óvitum að leika sama leik með opinber fyrirtæki og fjármuni almennings er alls ekki ásættanlegt.
Hvers vegna eru samþykktir fyrri stjórnar OR ekki rannsakaðar? Ætli það sé ekki af því að þar sátu pólitískir gæðingar sem þarf að vernda? Hvað höfum við lært af OR fíaskóinu? Höfum við bætt okkar stjórnarhætti og krafist þess að þar veljist inn menn með reynslu og þekkingu? Voru og eru þessar stjórnarstöður auglýstar?
Nei, mannaráðningar hjá öllum stjórnmálaflokkum fara eftir sama ferli – baktjaldamakk þar sem klíkuskapur og flokkshollusta er sett framar hæfileikum.
Líkurnar á greiðslufalli hjá OR eru yfirgnæfandi enda er ekki hægt að sjá að ný stjórn hafi verið valin eftir viðurkenndum alþjóðalegum ferlum. Þar á bæ hefur lítið breyst. Pólitíkin ræður öllu og sú tík á eftir að fara með þetta fyrirtæki norður og niður til mikillar hrellingar fyrir íbúa Reykjavíkur.“