Við Íslendingar glímum við ríkiskerfi sem hefur þanist óskaplega út á síðustu áratugum. Er orðið alltof stórt fyrir þessa litlu þjóð sem hefur sirkabát íbúatölu Stoke eða Bergen. Þrjúhundruð þúsund manns standa ekki undir þessu.
Vandinn er líka sá að það er lítill sem enginn pólitískur vilji til að vinda ofan af þessu líkt og rætt var í síðasta Silfri. Niðurskurðurinn er enn sem komið er hverfandi; það er til dæmis varla snert á þeirri heilögu kú sem er landbúnaðarkerfið.
Skattar eru hins vegar nauðsynlegir til að halda uppi sómasamlegu samfélagi. Ég dvel nú í Bandaríkjunum. Það slær mig eins og fleiri að sjá hinn mikla fjölda heimilisleysingja á götunum. Þetta er sorglegt að sjá, því að mörgu leyti eru Bandaríkin stórkostleg. Í Kaliforníu skilst mér að sé varla hægt að hækka skatta; það gerist ekki nema eftir atkvæðagreiðslu meðal íbúanna þar sem þarf aukinn meirihluta. Fyrir marga borgara í Bandaríkjunum er það eins og að falla niður um svarta holu ef þeir missa heilsuna eða atvinnuna.
Kenningar eru uppi um að velferðarsamfélög séu betur búin til að standast efnahagskreppur en samfélag eins og Bandaríkin.
Bandaríkin glíma við óskaplegan halla á ríkisbúskap sínum. Ein ástæðan fyir því hvernig er komið fyrir þjóðinni eru of lágir skattar. Bush lækkaði skatta á stórefnafólk. Hann var trúr þjónn sinnar stéttar. Sama leið var að nokkru farin á Íslandi, skattar á fjármagn voru lækkaðir stórlega. Við vorum raunar í þeirri stöðu að skattfé pumpaðist inn í ríkisstjóð vegna hins falska góðæris sem varð í efnahagsþenslunni. Við höfðum góðærisstjórnmálamenn sem vildu ekki skilja að þetta var blekking. Létu eins og þetta myndi vara að eilífu.
Nú þarf hins vegar að hækka skatta á Íslandi. Það eru fáir sem mæla því mót. Og Ísland verður ekki að Austur-Þýskalandi vegna þessa. Við erum líka í þeirri stöðu að líklega myndi enginn stjórnmálaflokkur mæla fyrir einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu á þessum tímapunkti.
Hins vegar eiga launþegar þessa lands heimtingu á að á sama tíma sé gengið einarðlega fram í að spara í ríkisrekstrinum. Það er ábyggilega við ramman reip að draga þar sem eru sérhagsmunir og smákóngaveldi sem vilja ekkert gefa eftir. En það verður að reyna, af alvöru.