Dr. Gunni skrifar um snillinginn Þóri Baldursson á bloggi sínu og er með viðtal við hann í Fréttablaðinu.
Upp í Tónastöð í Skipholti er Hammond orgel sem mér er sagt að Þórir hafi gert upp, með Leslie og öllu tilheyrandi. Það kostar 900 þúsund krónur.
Ég hef alltaf verið veikur fyrir Hammond orgelum, líklega eru það áhrif frá öðrum hjómborðssnillingi, Karli Sighvatssyni.
Þessi hljóðfæri voru fyrst notuð í kirkjum í Bandaríkjunum, ekki síst í kirkjum svartra, þar sem auraráð voru svo lítil að ekki var hægt að kaupa pípuorgel.
Svo var farið að nota þau í djassi og dægurtónlist. Þetta eru rafmagnshljóðfæri, en samt er hægt að ná ótrúlegum „fílíng“ út úr þeim, ólíkt því sem er með hljóðgervlana sem síðar komu – og unnu skemmdarverk á tónlist á löngu árabili.
En fyrst ég er að tala um Þóri þá verð ég líka að nefna Savanna tríóið. Það er kominn stór og vönduð útgáfa með tónlist þeirrar góðu sveitar – ég hef áður játað ást mína á henni hér á blogginu. Hún var stór partur af því að alast upp á Íslandi á árunum upp úr 1965.