Stundum verður að setja hlutina í samhengi. Þegar Árni Páll Árnason talar um grátkór hjá LÍÚ, þá er hann að vísa í ákveðna sögu.
Kristján Ragnarsson, sá mæti maður, fyrrverandi framkvæmdastjóri LÍÚ, var oft kallaður grátkona þjóðarinnar.
Það var á árunum þegar hann kom oft í fjölmiðla og kvartaði sáran undan bágri stöðu útgerðarinnar.
Yfirleitt var þetta í þeim tilgangi að kalla fram gengisfellingu. Útgerðin fór reglulega fram á gengisfellingar – og fékk þær.
Aðrar atvinnugreinar höfðu ekki þennan aðgang að valdinu, þær máttu gjörasvovel að lifa við þessi afarkjör.
Svo breyttist þetta reyndar á síðasta áratug. Þá var búið að ákveða að halda uppi fölskum lífskjörum á Íslandi með hágengi. Útgerðarmenn – og sjávarútvegsráðherra – töluðu um að nauðsyn væri að gengið væri lægra, en á þá var ekki hlustað.
Banka- og fjármálastarfsemi hafði tekið við sem aðalatvinnugreininn. Það náði hámarkið árið 2007 þegar þorskveiðar voru skornar stórlega niður en þess sáust hvergi merki á markaði hér eða í vísitölum – ekki fremur en fiskveiðar skiptu ekki lengur máli.