Megi Flosi fá góðan bata.
Það var bara um daginn að ég var að rifja upp óperuna hans Örlagahárið – sem birtist í einu af ógleymanlegum áramótaskaupum hans. Ég þarf að athuga hvort hún sé ekki til í safni sjónvarpsins.
Og svo fór ég að hugsa um þegar bruninn varð í Lækjargötu 1967, en þar bjó Flosi og vinur minn Óli bjargaðist.
Óli gerðist síðar óbóleikari en rekur nú hestabúgarð í Reykholtsdal. Og þar búa Flosi og Lilja líka.
Lilja er dóttir Laufeyjar og Margeirs á Brávallagötu 26. Sómamaðurinn Margeir er látinn fyrir mörgum árum, en Laufey – sem líka er móðir Ingólfs Margeirssonar – lifir og er næstum orðin hundað ára. Hún er ein ágætasta kona sem ég hef kynnst á lífsleiðinni. Og ekki ætla ég að gleyma öðrum syni hennar, hinum sérstaka heiðursmanni Óskari.
Önnur dóttir Laufeyjar er Margrét, móðir Ívars Gissurarsonar, sem býr í sama húsi og ég. Bróðir Ívars, Snorri, og ég vorum bestu vinir þegar við vorum litlir. Ég var heimagangur á Brávallagötunni, þar kynntist ég Bítlunum, Dylan og Bonanza.
Ívar er bókaútgefandi hjá Skruddu og mikill vinur Flosa. Hann er einmitt að fara að endurútgefa Í kvosinni, hina bráðskemmtilegu minningabók Flosa sem kom út 1982 – í tilefni af áttræðisafmæli Flosa sem er alveg á næstunni.