Andri Geir Arinbjarnarson skrifar um Exista á bloggi sínu:
— — —
Exista: ríki í ríkinu
Afkoma Exista er hreint ótrúleg þegar maður fer að rýna í uppgjörið í ensku útgáfunni sem er upp á 45 blaðsíður en íslenska útgáfan er 7 blaðsíður.
Tap félagsins er 1,618 ma evrur eða 206 ma kr (gengi 127 kr. evran) eða álíka og halli ríkisins á sama tíma! Það eru ekki mörg einkafyrirtæki sem slá ríkið út í halla eins og Exista.
Skuldir er 2,100 m evra en eigið fé er 200 ma evra.
Útlán Exista sem eru á eindaga nema 836 m evra. Hver skuldar þetta?
Hagnaður borgaður til Exista af dótturfélögum: 180 m evra eða 33 ma kr á gengi dagsins í dag sem viðskiptavinir dótturfélaga Exista (Síminn, VÍS, Lýsing, Bakkavör t.d.) borga sem „hagnað“ þó ég geti ekki séð að þau skili neinum hagnaði?
Launakostnaður Exista er 25 m evra 2008 á móti 29 m evra 2007. Miðaða við meðalgengi á evrunni 127 kr. 2008 og 88 kr. 2007, kemur ansi athyglisverður hlutur í ljós:
Launakostnaður mældur í kr. hækkaði frá 2,552 m kr. fyrir 2007 upp í 3,175 m kr fyrir árið 2008 eða um 623 m kr. sem gera 24%. (á sama tíma fækkaði starfsmönnum úr 433 í 420 eða um 3% þ.e. meðalmánaðarlaun hækkuðu á milli 2007 og 2008 frá 490,000 kr í 630,000 kr). Sem sagt, allt bendir til að æðstu stjórnendur innan Exista hafi verið ríkulega verðlaunaðir fyrir þetta tap. Klassískt, ekki satt.
Maður er farinn að skilja hvers vegna þetta fólk rígheldur í sínar stöður. Hvað eru margir starfsmenn innan Exista sem eru með sinn launasamning í evrum?