„Þegar einstaklingur kemst að því að fyrirtæki sem hann á mikið undir í er annað hvort búið að gefa út rangar eða villandi upplýsingar um stöðu sína eða þá að að því steðji slík ógn að líkur séu á gjaldþroti, hver er þá réttur hans?“ skrifar Hermann Guðmundsson, forstjóri olíufélagsins N1 um mál Baldurs Guðlaugssonar ráðuneytisstjóra, innherjaviðskipti hans.
Og Hermann segir ennfremur að Baldur hafi verið að verja fjölskyldu sína:
„Í mínum huga þá er það grundvallarréttur og skylda hvers manns að verja sig og sína fjölskyldu fyrir áföllum og forða tjóni þar sem það er hægt. Hvað er til ráða þegar svona aðstæður koma upp?“
Baldur var – og er – einn æðsti embættismaðurinn hjá íslenska ríkinu. Hann hafði upplýsingar sem aðrir höfðu ekki. Í þessu máli er hann eins konar forréttindaþegn.
Hvað með allt hitt fólkið, sem átti hlutabréf í Landsbankanaum eða geymdi fé í ýmsum sjóðum hans – og hafði ekki þessar upplýsingar?
Fyrir nú utan að Baldur Guðlaugsson sat á sínum tíma í einkavæðingarnefnd, var settur þangað inn eftir að Steingrímur Ari Arason sagði sig úr nefndinni með þeim orðum að hann hefði aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum – en í því bralli öllu er að finna upphafið að ógæfunni.
Hafi skipið lekið er Baldur einn af þeim sem bera sök á því – og varla stendur í reglunum að skipstjórnarmenn á fleyinu skuli vera fyrstir frá borði?