Tveir af fremstu rithöfundum þjóðarinnar verða gestir í Kiljunni í kvöld. Það eru þeir Jón Kalman Stefánsson, en nú í vikunni kemur út ný skáldsaga eftir hann sem ber nafnið Harmur englanna og er beint framhald af Himnaríki og helvíti sem hann sendi frá sér fyrir tveimur árum. Bókin gerist á sömu slóðum, það er fyrir vestan, í miklu fannfergi.
Hinn höfundurinn er Steinar Bragi en í næstu viku kemur frá honum bókin Himininn yfir Þingvöllum. Hún inniheldur þrjár langar smásögur, það sem kallast nóvellur, sem gerast í Ljósvallagötunni, Ölpunum og á olíuborpalli. Eins og einatt í verkum Steinars Braga verða furðulegir og óhugnanlegir atburðir.
Við fjöllum um Íslenska sjónabók með Guðmundi Oddi Magnússyni, prófessor við Listaháskólann.
Bragi er á sínum stað en Kolbrún og Páll fjalla um ævisögu Magnúsar Eiríkssonar tónlistarmanns, Sólstjaka eftir Viktor Arnar Ingólfsson og Ennislokk einvaldsins, bók eftir nýja Nóbelsverðlaunahafann Hertu Müller, sem kom út hjá Ormstungu árið 1995.
Herta Müller var semsagt ekki alveg óþekkt á Íslandi.