Skálholt er staður fullur af töfrum og sögu. Þetta var hinn raunverulegi höfuðstaður Íslands í margar aldir.
Við fórum þangað síðdegis í gær í hvínandi roki en hrífandi haustlitafegurð.
Hlustuðum á Skálholtrektor, þann hálærða menntamann Kristin Ólason, segja frá sögu staðarins.
Frá timburkirkjunum sem voru byggðar í Skálholti á miðöldum og voru miklu stærri en kirkjan sem stendur þar núna, ótrúlega stór mannvirki – Klængskirkja og Gíslakirkja svonefndar.
Það er nánast óskiljanlegt hvernig menn með skipakost þeirra tíma fóru að því að flytja timbrið frá Noregi til Íslands. Það var siglt með stórviðina á Eyrarbakka og þeir líklega dregnir á ís upp Ölfusá og Hvítá.
Svo talaði hann um deilur Þorláks biskups og mesta höfðingja þeirra tíma, Jóns Loftssonar. Eitt útspil Jóns var að barna sytur Þorláks. Hann fór með henni í Þórsmörk til að kyssa hana „síðasta kossinn“, eins og Kristinn orðaði það – barnið sem kom úr því sambandi var sjálfur Páll Jónsson, merkur biskup, en steinkista hans er geymd í hvelfingu undir kirkjunni.
Það var Jökull Jakobsson sem kom niður á hana í frægum fornleifauppgreftri 1954.
Saga Brynjólfs biskups er heillandi og afar sorgleg.
Brynjólfur var bókasafnari, maður mennta og menningar. Hann bjargaði miklu magni handrita frá glötun, skrifaði sjálfur í gríð og erg – sumt af því brann reyndar í Kaupmannahöfn 1728 en það sem eftir er teljast merkustu heimildir um lífsbaáttuna á Íslandi á 17. öld.
Brynjólfur er þó kannski frægastur fyrir dóttur sína, Ragnheiði, sem þurfti að sverja af sér samneyti við skólapiltinn Daða í Skálholtskirkju 11. maí 1661, þá 19 ára gömul. Í febrúar ól hún svo sveinbarn.
Ragnheiður dó nokkru síðar og svo fór um öll börn Brynjólfs, konu og barnabörn. Öll dóu frá honum. Þá var hann svo uppgefinn að hann baðst lausnar frá biskupsdómi, var loks jarðaður við kirkjuna, æskti þess sjálfur að gröfin yrði ómerkt. Brynjólfur minnir á söguna af Job; hann var ábyggilega búinn að missa vonina, en missti hann líka trúna?
Kirkja Brynjólfs Sveinssonar stóð í Skálholti fram á 19. öld, en fyrst á öldinni var biskupsstóllinn fluttur til Reykjavíkur. Þá höfðu verið endalaus harðindatímabil, í kjölfar móðuharðinda kom sterkasti Suðurlandsskjálfti sem þekktur er, árið 1784. Þá hrundu torfbæir unnvörpum, en kirkjan sem var úr timbri stóð af sér skjálftann.
Eftir það var Skálholt í niðurníðslu um langt skeið. En nú er það aftur orðið prýðilegt menningarsetur. Kirkjan sem þar stendur er mjög fögur, hún var vígð 1963, og sérstaklega hin stórkostlega altaristafla úr mósaík eftir Nínu Tryggvadóttur, sem sýnir frelsarann í íslenskri náttúru, að ógleymdum steindu gluggunum eftir Gerði Helgadóttur.
Annars fórum við aðallega í Skálholt til að éta miðaldakvöldverð.
Það er siður í Skálholti að snæða mat í anda Þorláks helga. Þá er einungis á boðstólum matur sem hefði getað verið á borðum á miðöldum, ekki kartöflur eða kaffi til dæmis, það kom seinna.
En við fengum harðfisk, söl, gæsasúpu, flatbrauð, silung, lambakrof og svo svartfugl – sem var sagt að kæmi í staðinn fyrir geirfuglinn, hann er ekki lengur meðal vor, ógæfa hans var að hann var bæði matarmikill og seinn að forða sér.
Að öllu leyt frábært kvöld, meðan vindurinn gnauðaði á biskupssetrinu forna.