Það er verið að tala um ábyrgð og útbreiðslu Morgunblaðsins.
Eins og komið hefur fram hefur lestur blaðsins hrunið, hann mælist ekki nema um 30 prósent.
Það sem er eiginlega athyglisverðara er lesturinn meðal yngri hópa – þar er hann algjörlega hverfandi.
Mogginn birtir mikið af minningargreinum. Það er kaldhæðnislegt, en í raun má segja að í hverri minningargrein sem Moggin birtir um aldraðan Íslending sjái það á bak lesanda.
Svo er lesendahópurinn gamall.
Það sást í blaðinu fyrir jól að auglýsendur líta varla við blaðinu – jafnvel þótt auglýsingaverðið sé miklu lægra en á velmektarárum blaðsins.
Það er líka spurning um áhrif þess. Það er lítið vitnað í leiðaraskrif í blaðinu, enda eru þau mjög endurtekningarsöm og fátt í þeim sem kemur á óvart. Eins er með aðsendar greinar í blaðinu, maður hefur orðið var við að greinar sem eru sendar þangað til birtingar falla oft dauðar niður – þær ná einfaldlega ekki til nægilega stórs lesendahóps nema þeim sé gefið líf með því að vitna í þær á netinu.
Mogginn er að sumu leyti kominn í svipaða stöðu og flokksblöðin gömlu, Tíminn, Alþýðublaðið og Þjóðviljinn. Þar var lítið um auglýsingar, áhrifin ekki mikil nema í takmörkuðum hópi og öllu sem þar birtist var tekið með miklum fyrirvara. Stundum tókst þessum blöðum þó að gera dálítil læti.
Í krafti útbreiðslu sinnar er Fréttablaðið miklu öflugri fjölmiðill. Til dæmis fá aðsendar greinar þar miklu meiri lestur en í Mogganum. En það er ekki þar með sagt að Fréttablaðið sé gott dagblað, eignarhaldið þvælist skelfing mikið fyrir því og eins og gjarnt er um fríblöð er það óttalega karakterlaust.
Maður flettir Fréttablaðinu á örskotsstund, staldrar við fátt, en það á raunar líka við um Moggann – nema maður sé lesandi minningargreinanna.
Það er hins vegar áhugavert að skoða vefina sem báðir þessir fjölmiðlar halda úti. Mbl.is og Vísir.is eru báðir feiki öflugir miðlar og notendavænir. Það virðist hins vegar passað upp á að láta ekki pólitíkina sem sést í blöðunum leka of mikið út á netið – enda gæti það fælt frá.