Síðasta Kiljan fyrir jól er á dagskrá annað kvöld.
Við förum á gömlu lögreglustöðina við Pósthússtræti með Jóni Péturssyni. Jón var lögreglumaður í Reykjavík um langt árabil, auk þess að vera þekktur íþróttamaður. Hann hefur skrifað ævisögu sína undir nafninu Jón lögga, en þar rifjar hann meðal annars upp árin á gömlu löggustöðinni, tíma Hafnarstrætisrónanna og bæjarbraginn upp úr miðri síðustu öld.
Steinunn Jóhannesdóttir segir frá bók sinni Heimanfylgju. Það er skáldsaga um uppvöxt Hallgríms Péturssonar skálds, og segir meðal annars frá tímanum þegar hann dvaldi á Hólum ásamt föður sínum. Pétri hringjara, en þeir voru bræðrasynir hann og sjálfur Guðbrandur biskup Þorláksson.
Þórarinn Eldjárn gerir grein fyrir nýrri þýðingu sinni á einu höfuðverki Shakespeares, Lé konungi. Það er jólaleikrit Þjóðleikhússins, en áður hafa Steingrímur Thorsteinsson og Helgi Hálfdanarson þýtt verkið.
Kolbrún og Páll Baldvin fjalla um Sovét-Ísland eftir Þór Whitehead, Útlaga eftir Sigurjón Magnússon og Tregðulögmálið eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur.
En Bragi fjallar um merka menn sem höfðu aðsetur á Holdsveikraspítalanum í Laugarnesi.